Fjölskyldudögum í Vogum frestað
- Ratleikur og flugeldasýning á sínum stað
Tekin hefur verið ákvörðun að fresta hátíðarhöldum á vegum Sveitarfélagsins Voga á Fjölskyldudögum í ár. „Eins og menn vita er þessi ákvörðun tekin í ljósi aðstæðna og með sóttvarnarreglur að fyrirrúmi. Þó einhverjar hátíðir hafi farið fram í sumar hefur flestum ef ekki öllum stærstu hátíðunum verið slegið á frest, nú síðast Menningarnótt í Reykjavík,“ segir á vef Sveitarfélagsins Voga.
Íbúar Sveitarfélagsins Voga eru hvattir til að skreyta bæinn þrátt fyrir þetta og nota hverfalitina. Umhverfisverðlaun sveitarfélagsins verða veitt eftir sem áður bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Þá er fólk hvatt til að gera sér glaðan dag um helgina eftir því sem aðstæður leyfa og njóta samveru með fjölskyldunni.
„Flugeldasýningin okkar verður á sínum stað kl. 23.00 á laugardaginn og hvetjum við fólk til að vera útivið og njóta sýningarinnar en virða að sjálfsögðu allar nándarreglur,“ segir jafnframt í fréttinni.
Einn dagskrárliður af áætlaðri dagskrá Fjölskyldudaganna verður látinn halda sér en það er Ratleikurinn. Þátttakendur geta sótt smáforritið Ratleikur í snjalltækin sín og á laugardaginn verður opnað á tvo ratleiki í Vogum. Það á að vera auðvelt að ljúka þeim án þess að þurfa að koma nálægt nokkrum manni. Þeir sem ljúka leiknum geta sótt vinning í Verslunina Vogum sem eru einn ís og eintak af Þrautabókinni (takmarkað magn af henni, nær ótakmarkað magn af ís).
Þá segir: „Við vonum, og teljum okkur reyndar vita, að íbúar sýni þessu skilning og treystum á að við munum bara mæta tvíefld til leiks á Fjölskyldudögum 2021“.