Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 7. júní 2001 kl. 11:00

Fjölskyldudagur hjá slökkviliðinu á laugardag

Brunavarnir Suðurnesja efna til árlegs fjölskyldudags með opnu húsi á slökkviliðsstöðinni í Keflavík nk. laugardag. Dagskráin hefst kl. 11 og lýkur kl.15:30.
Dagskráin er fjölbreytt og sniðin að fjölskyldunni og Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri segist vonast til að sjá sem flesta. Meðal þess sem er á dagskrá er björgun fólks úr bílflaki og eldur slökktur, sýnikennsla í endurlífgun, sýning á tækjabúnaði neyðarsveitanna, reykköfun, veltubíllinn verður á staðnum, björgun af þaki með körfubílnum o.fl. Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur nokkur lög og boðið verður upp á grillaðar pylsur og gosdrykk gegn vægu verði. Þátttakendur geta svarað laufléttum spurningum um brunavarnir og dregið verður úr svörum í lok dags og vegleg verðlaun eru í boðið fyrir snillinga.
„Markmiðið með þessum degi er að vekja athygli á brunavörnum og samstarfi neyðarsveita á Suðurnesjum, þ.e. Suðurnesjadeildar RKÍ, lögreglu og Björgunarsveitarinnar Suðurnes“, segir Sigmundur.
Á sl. tveimur árum hefur stór hluti tækjabúnaðar slökkviliðsins verið endurnýjaður en árið 1999 samþykkti stjórn Brunavarna Suðurnesja þriggja ára áætlun um endurnýjun tækja og búnaðar.
„Nú þegar hafa verið keyptir tveir slökkviliðsbílar, þ.e. körfubíllinn og sem tekinn var í notkun 17. júní sl. og nú 9. júní verður formlega afhentur nýr slökkviliðs og björgunarbíll sem er byggður með það að markmiði að stytta útkallstíma slökkviliðsins við jaðarbyggðir. Hann er með búnað til losunar á fastklemmdu fólki úr bifreiðum og á fjölskyldudeginum komum við til með að sýna hvernig slík björgun fer fram“, segir Sigmundur en þess má geta að í september nk. er væntanlegur nýr Scania, sem er stór slökkviliðsbifreið. Þá er á áætlun að endurnýja öll reykköfunartæki slökkviliðsins ásamt öðrum smærri búnaði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024