Fjölskyldan er okkur ofarlega í huga

Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra í Sandgerði og Garði

Kosið er til bæjarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs á morgun, laugardaginn 26. maí. Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita allra framboðslista í sveitarfélaginu.
 
Einar Jón Pálsson, oddviti  Sjálfstæðismanna og óháðra í Sandgerði og Garði:
 
Hver eru stærstu kosningamálin í þínu sveitarfélagi fyrir þessar kosningar?
Sameining sveitarfélaganna verður stærsta verkefni bæjarstjórnarinnar á komandi kjörtímabili. Ég tel að að kosningarnar snúist um það hvernig framboðin ætla sér að vinna að samþættingu á þjónustu fyrir íbúana og hverja íbúarnir velja til að leiða þá vinnu. Þá er ákvörðun um framtíðarskipulag sveitarfélagsins stórt verkefni og höfum við lagt til að farið verði í hönnunarsamkeppni þar sem horft verður til styrkleika sveitarfélagsins og þeirra áherslna sem íbúarnir hafa við þá vinnu.
 
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, að þessu sinni?
Auk þess sem áður var getið varðandi aðalskipulagið, þá er stöðugleiki og áframhaldandi lækkun skulda, en um leið lægri álögur mikilvæg verkefni komandi kjörtímabils.
 
Fjölskyldan er okkur ofarlega í huga og við leggjum mikla áherslu á að geta aukið fræðslu- og sérfræðiþjónustu og að stofnað verði sérstakt fjölskyldusvið þar sem hægt verður að koma betur til móts við þarfir ólíkra einstaklinga á heildstæðan hátt. Við ætlum okkur líka að bregðast við ákalli íbúa um aukinn fjölda leikskólaplássa og koma á stofn ungbarnaleikskóla síðar á þessu ári.
 
Gera verður áætlun um hvernig bæta eigi aðstöðu til íþróttaiðkunar og einnig auka framboðið en um leið gæta að því að börn hafi jafna möguleika til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Því verður gert ráð fyrir fjölnota íþróttahúsi í nýju aðalskipulagi og undirbúningur hafinn á kjörtímabilinu.
 
Þá viljum við stuðla að aukinni umhverfisvitund íbúa og á sveitarfélagið að vera leiðandi og sýna gott fordæmi, á því sviði getum gert mun betur.