Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjölskyldan eignalaus vegna myglusvepps
Miðvikudagur 17. desember 2008 kl. 13:33

Fjölskyldan eignalaus vegna myglusvepps



Óðinn Arnberg og Ragna Kristín Ragnarsdóttir eru ung hjón í Grindavík. Þau eiga fimm börn á aldrinum tveggja til sautján ára. Árið 2000 festu þau kaup á húsi í Grindavík sem átti að verða framtíðarheimili þeirra og í því skyni hófu þau gagngerar endurbætur á húsinu og eyddu í það stórfé. En í húsinu leyndist vargur í véum.
Nokkru eftir að þau fluttu inn fór að bera á margvíslegum veikindum í fjölskyldunni. Eitt tók við af öðru og veikindasagan virtist engan enda ætla að taka. Í ljós kom að myglusveppur grasseraði í húsinu og urðu þau hjónin á endannum að flýja úr því með börnin fimm. Þau sitja uppi með tjónið því engar tryggingar ná yfir þetta. Húsið er ónýtt, þær milljónir sem fóru í endurbæturnar eru tapaðar sömuleiðis og þau hafa jafnframt tapað megninu af eigum sínum sem þau urðu að skilja eftir í húsinu.

Vinir og velunnarar fjölskyldunnar hafa opnað söfnunarreikning til að hjálpa fjölskyldunni að koma undir sig fótunum að nýju.
Þá verður haldið styrktarkvöld í Salthúsinu í Grindavík næstkomandi föstudagskvöld þar sem m.a. ýmsir tónlistarmenn stíga á stokk.

Númer söfnunarreikningsins er 1193 – 05 – 001550, kt. 140673 - 5369

Við fjöllum nánar um málið í Víkurfréttum sem koma út á morgun

Mynd: Ragna, Óðinn og börnin þeirra fimm flúðu heimili sitt vegna myglusvepps og hafa komið sér fyrir í leiguhúsnæði í Grindavík. Þau eru strax farin að finna mun á heilsufari fjölskyldunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024