Fjölnota íþróttahús í Grindavík fyrir áramót?
Forráðamenn knattspyrnudeildarinnar í Grindavík eru stórhuga hvað framtíðina varðar í uppbyggingu mannvirkja til íþróttanotkunar. Grindavík hefur verið í mikilli uppbyggingu síðustu ár. Nýr grasvöllur með frábærri stúku hefur þegar verið byggður og ætla Grindvíkingar sér ekki að stöðva þar í uppbyggingu félagsins.
Nýleg könnun frá fagfólki í ferðaþjónustu fannst Grindavík hafa sérstöðu þegar spurt var hvað væri markverðast við bæjarfélögin á Suðurnesjum. Flestir nefndu höfnina eða Saltfirksetrið og saltfisk og síðan fisk og öflugt íþróttalíf í Grindavík
Jónas Karl Þórhallson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur segir að það sé stór draumur að fjölnota íþróttarhús verði komið upp fyrir næstu áramót. Aðstaðan til knattspyrnuæfinga í Grindavík yfir vetrarmánuðina er engin og hana verður að bæta. Ef ekkert verður að gert eru skilaboðin klár. Menn gefast upp og þessi starfsemi með lið í efstudeild, er í hættu.
Það er ekki eingöngu verið að tala um aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í þessu húsi, það má nota það fyrir almenna íþróttakennslu fyrir skólann og alhliða aðstöðu fyrir almenna hreyfingu fyrir íbúa Grindavíkur og þá öflugu íþróttastarfsemi sem einkennir bæinn.
Grindvíkingar fengu Sigurbjart Loftsson verkfræðing til að setja fram hugmyndir knattspyrnudeildarinnar sem þegar hafa verið kynntar fyrir bæjarstjórn Grindavíkur og öllum deildum félagsins. Hugmyndirnar eru komnar til íþrótta- og æskulýðsnefndar Grindavíkurbæjar, þar sem nánari útfærslur verða metnar og spurningum svarað um hvort ráðist verði í framkvæmdir mannvirkjanna og hvernig forgangsröðunin myndi líta út.
Jónas segir að fjölnota íþróttahús sé mikilvægur hlekkur fyrir framtíð íþróttaiðkunar í Grindavík og segir jafnframt að lengja þurfi íþróttahúsið og parketleggja. Þetta tvennt verði að hafa forgang.
Jónas segir verkið mjög metnaðarfullt og vonast til að hugmyndirnar verði að veruleika fyrr en menn grunar. Fjölnota íþróttarhús eru ekki einu hugmyndirnar sem komu frá knattspyrnudeildinni heldur einnig millibygging sem tengir sundmiðstöðina við íþróttahúsið, og þar yrði líkamsrækt, félagsaðstaða og skrifstofur fyrir inniíþróttir. Þá eru hugmyndir að nýrri þjónustumiðstöð knattspyrnudeildar með búningsaðstöðu, fundaraðstöðu, skrifstofum og móttökusal við suðurenda stúkubyggingar.
Uppi eru nokkrar hugmyndir um staðsetningar fjölnota íþróttahúss. Ein hugmyndin er að tengja húsið við núverandi búningsklefa knattspyrnudeildar en það myndi þýða að „Gula húsið“ þyrfti að víkja.
Þá eru tvær aðrar staðsetningar einnig kynntar sem myndi gefa möguleika á byggingu stærra fjölnota húsnæðis. Þessar staðsetningar eru þar sem gamli knattspyrnuvöllurinn er og þar sem tjaldsvæði bæjarins er staðsett nú.
Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segist lítið geta tjáð sig um málið að svo stöddu þar sem málið hafi verið sent til umfjölluna í íþrótta- og æskulýðsnefnd og er til umfjöllunar þar. Þegar þeirra umsögn kemur þá verður málið aftur rætt í bæjarráði og bæjarstjórn.
Tölvumynd:/Hugmyndir um staðsetningu á fjölnota íþróttahúsi. Stærra húsið er á gamla knattspyrnuvellinum og einnig er á myndinni hugmyndin um tengingu fjölnota íþróttahúss við íþróttahús Grindvavíkur. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um hugmyndir og hugsanlegar staðsetningar á www.umfg.is