Fjölmenni við útför Ingólfs Bárðarsonar
Mikið fjölmenni var við útför Ingólfs Bárðarsonar rafverktaka og fyrrum forseta bæjarstjórnar Njarðvíkur sem fram fór í Ytri-Njarðvíkurkirkju fyrr í dag.
Ingólfur átti sæti í bæjarstjórn Njarðvíkur í 12 ár og þar af forseti bæjarstjórnar í 4 ár. Ingólfur starfaði mikið í félagsmálum. Hann sat í stjórn Rafverktakafélags Suðurnesja, stjórn Landssambands íslenskra rafverktaka, í rafveitunefnd Njarðvíkur, í stjórn og sem stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja, í Lionsklúbbi Njarðvíkur starfaði hann í rúm 40 ár, í JC Suðurnes og sem forseti um skeið, einn af stofnendum Unghjónaklúbbs og Nýja Hjónaklúbbsins.
Ingólfur sinnti ýmsum trúnaðarstörfum í Sjálfstæðisflokknum frá 16 ára aldri, einnig starfaði hann í kirkjustarfi Ytri-Njarðvíkurkirkju í 25 ár. Hann var í Frímúrarareglunni frá 1985.