Fjölmenni við útför Árna Ragnars Árnasonar

Séra Ólafur Oddur Jónsson jarðsöng ásamt séra Jakobi Ágústi Hjálmarssyni og Snorri Wium söng einsöng. Kammerkór Langholtskirkju söng við athöfnina og einleikarar voru Jónas Dagbjartsson og Björn Árnason.
Árni fæddist á Ísafirði 4. ágúst 1941 og lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 16. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans eru Árni Ólafsson, skrifstofustjóri í Keflavík, f. á Ísafirði 4. nóvember 1919, d. 4. júlí 2002, og kona hans Ragnhildur (Hulda) Ólafsdóttir húsmóðir, f. á Látrum í Aðalvík 3. október 1918. Systur Árna Ragnars eru Ásthildur, skrifstofustjóri í Keflavík, Sigríður Jóna, deildarstjóri í Ohio, Bandaríkjunum, og Ragnhildur, bókasafnsfræðingur í Keflavík.
Foreldrar Árna voru Ólafur Pálsson, framkvæmdastjóri á Ísafirði, síðar endurskoðandi í Reykjavík, og kona hans, Ásthildur Sigurðardóttir. Foreldrar Ragnhildar (Huldu) voru Ólafur Helgi Hjálmarsson, útvegsbóndi á Látrum í Aðalvík og síðar vélsmiður í Reykjavík, og kona hans, Sigríður Jóna Þorbergsdóttir.
Árni Ragnar kvæntist 24. nóvember 1962 Guðlaugu Pálínu Eiríksdóttur, f. 23. nóvember 1944. Foreldrar hennar eru Eiríkur Björn Friðriksson, sjómaður frá Ólafsfirði en síðar tollþjónn í Keflavík, f. 11. júní 1913, d. 8. maí 1999, og kona hans Jófríður Helgadóttir, f. 7. september 1922. Börn Guðlaugar og Árna Ragnars eru: 1) Guðrún viðskiptafræðingur og fasteignasali, f. 21. maí 1963, gift Brynjari Harðarsyni. Börn þeirra eru Davíð Stefánsson, Bjarki og Harpa. 2) Hildur endurskoðandi, f. 4. ágúst 1966, gift Ragnari Þóri Guðgeirssyni. Börn þeirra eru Katrín og Ragnar Geir. 3) Björn vöruþróunarstjóri, f. 26. október 1971, kvæntur Kristbjörgu Kari Sólmundsdóttur, sonur þeirra er Róbert Alexander. 4) Árni verslunarmaður, f. 7. nóvember 1973, unnusta Kolbrún Hrönn Pétursdóttir, sonur þeirra er Árni Pétur.
Árni Ragnar lauk prófi frá Samvinnuskólanum 1960 og starfaði fyrst hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Hann var fulltrúi og síðar útibússtjóri Verslunarbanka Íslands 1966-1971, en rak eigin bókhaldsstofu í Keflavík 1971-1985, með útibú í Vestmannaeyjum og á Selfossi. Fjármálastjóri og síðar deildarstjóri hjá Varnarliðinu 1985-1991. Í stjórn Hitaveitu Suðurnesja frá 1992-2002.
Árni Ragnar var formaður Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Keflavík 1966-1971 og var í stjórn SUS 1969-1974. Hann átti sæti í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Keflavík, síðar Reykjanesbæ, frá 1964 og var formaður þess 1987-1991. Hann var í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi, síðar Suðurkjördæmi frá 1966. Hann var bæjarfulltrúi í Keflavík 1970-1978 og sat í ýmsum nefndum á þeim tíma. Formaður atvinnumálanefndar Keflavíkur 1990-1994. Hann var einn af stofnendum JC Suðurness og fyrsti forseti þess og landsforseti JC Íslands 1976-1977. Hann var sæmdur öllum æðstu viðurkenningum JC-hreyfingarinnar á Íslandi og útnefndur heiðursfélagi JC Íslands og Senator. Fulltrúi Lionsklúbbsins Munins í fulltrúaráði Sunnuhlíðarsamtakanna frá 1997. Í stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna frá 2001.
Árni Ragnar var fyrst kosinn á Alþingi árið 1991 sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi. Hann var þingmaður Suðurkjördæmis frá 2003 til dánardægurs. Á Alþingi átti hann sæti í fjölmörgum fastanefndum og var fulltrúi Alþingis á ýmsum fundum og ráðstefnum á erlendum vettvangi. Þá var hann fulltrúi þingflokksins í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Árni Ragnar greindist fjórum sinnum með krabbamein, fyrst árið 1995. Hann var alla tíð tilbúinn að ræða opinskátt um sjúkdóm sinn og var mörgum krabbameinssjúklingum stoð og stytta vegna þess. Árni Ragnar beitti sér m.a. fyrir því að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu sem fjallaði um auknar forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi og öðrum sjúkdómum þeim tengdum.
VF-mynd/Þorgils Jónsson, texti af mbl.is