Fjölmenni á vinnudegi heilsueflandi samfélags
Embætti landlæknis í samstarfi við heilsueflandi samfélag í Reykjanesbæ hélt vinnustofu fyrir hagsmunaaðila í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum í gær. Að sögn Jóhanns Friðriks Friðrikssonar, lýðheilsufræðings og verkefnastjóra verkefnisins í Reykjanesbæ, var mæting framar vonum. „Fulltrúar frá leikskólum, grunnskólum, framhaldsskóla og bæjarfélögum voru saman komnir en einnig voru þátttakendur frá fyrirtækjum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, lögreglu, Félagi eldri borgara og úr hópi unga fólksins.“
Heilsueflandi samfélag leggur áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa sé í fyrirrúmi í allri stefnumótun og á öllum sviðum. Markmið vinnudagsins var að styðja sveitarfélögin í að vinna markvisst heilsueflingarstarf í sínu samfélagi og var dagskránni skipt í fyrirlestra og svo vinnustofu eftir hádegið. Boðið var upp á mat í hádeginu fyrir fundargesti en dagskránni lauk með samantekt á hugmyndum fundarmanna.
Í máli fundarmanna kom fram að mikilvægt væri að setja raunhæfa stefnumörkun varðandi heilsueflingu; efla samstarf á milli ríkis, sveitarfélaga, stofnana, skóla, heilbrigðisstofnanna og heimilis. Fjölmargar hugmyndir litu dagsins ljós í vinnustofum varðandi heilsueflingarverkefni og hvernig hægt væri að hafa áhrif á heilsu bæjarbúa til góðs. Vinnustofan var haldin með stuðningi Evrópuverkefnsisins JA CHRODIS.
Heilsuefling tekur til félagslegra, andlegra og umhverfislegra áhrifaþátta heilbrigðis en á Suðurnesjum taka ýmsir leikskólar og grunnskólar þátt í heilsueflandi skóla auk Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Reykjanesbær og Grindavík hafa skrifað undir samnning við Embætti landlæknis um að gerast heilsueflandi samfélög og hafa hin sveitarfélögin einnig sýnt verkefninu mikinn áhuga.