Fjölmenni á kynningarfundi sjálfstæðismanna fyrir prófkjör
Vel á annað hundrað manns sóttu sameiginlegan fund allra frambjóðenda fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi á Nesvöllum í gærkvöldi. Líflegar umræður voru um brýnustu málin og ellefu frambjóðendur kynntu sig og áherslumál sín.
Frambjóðendur kynntu í upphafi fundar sín helstu málefni í framsögu og að því loknu voru umræður með fundargestum þar sem frambjóðendur gengu á milli borða. Helstu málefnin sem brunnu á hjá frambjóðendum sem og fundargestum voru heilbrigðis- og samgöngumál. Þá voru málefni aldraðra og húsnæðismál einnig mikið til umræðu.
Sex Suðurnesjamenn eru í framboði en alls taka ellefu manns þátt í prófkjörinu sem fer fram næsta laugardag.
Þrír aðilar hafa boðið sig til forystustarfa, í 1. sætið eða 1.-2. sætið. Það eru Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ásmundur Friðriksson, þingmaður og Páll Magnússon fyrrv. fréttastjóri og útvarpsstjóri.
Hér er hægt að sjá kynningu á frambjóðendum sem taka þátt í prófkjörinu.
Ásmundur Friðriksson leggur áherlsu á sín mál í borðakynningum.
Páll Magnússon er nýliði í pólitík og hér er hann á spjalli við bæjarfulltrúana Árna Sigfússon, Böðvar Jónsson, Axel Jónsson í Skólamat og fleiri.
Grindvíkingurinn Vilhjálmur Árnason býður sig fram til 3. sætis í prófkjörinu.
Ísak Ernir Kristinsson er ungur Keflvíkingur að spreyta sig í pólitík í fyrsta sinn.
Njarðvíkingurinn Bryndís Einarsdóttir er einn af nýliðunum í þessu prófkjöri. Hér er hún á borðaspjalli.