Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjölmenni á álversfundi
Fimmtudagur 15. febrúar 2007 kl. 11:07

Fjölmenni á álversfundi

Nokkuð fjölmenni var á fundi um Álver í Helguvík sem ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum stóðu fyrir á Ránni í Reykjanesbæ í gær.

Þar leiddu saman hesta sína forsvarsmenn andstæðra fylkinga ef svo má að orði komast því Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og fjármálasviðs Norðuráls, kynnti afstöðu fyrirtækisins og Bergur Sigurðsson,framkvæmdastjóri Landverndar, fór yfir væntanleg umhverfisáhrif álvers og virkjana.

Auk þess tók Guðný Hrund Karlsdóttir, frambjóðandi Samfylkingar, til máls og kynnti stefnu flokksins í umhverfismálum sem ber yfirskriftina „Fagra Ísland“.

Róbert Marshall, annar frambjóðandi Samfylkingar stýrði fundinum.

 

Í lok fundar var samþykkt svohljóðandi ályktun: „Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum krefjast þess að íbúum á Suðurnesjum verði gert kleift að kjósa um fyrirhugað álver í Helguvík. Álver hefur gríðarlega mikil áhrif á samfélagið og umhverfið á Suðurnesjum og þess vegna verður vilji almennings að koma fram með skýrum hætti. Uj-Suð skorar því á sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um þessi áform áður en til framkvæmda kemur."

Uj-Suð segist í tilkynningu vonast til þess að fundurinn verði til þess að ýta enn frekar undir opna umræðu á Suðurnesjum um fyrirhugað álver í Helguvík.

Í framhaldi af því má nefna að Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum bjóða til samkundu að Hafnargötu 86 annað kvöld þar sem heimasíða félagsins verður formlega vígð.

Guðný Hrund og Róbert verða einnig þar auk þess sem góðir gestir leika tónlist fyrir viðstadda.

 

Vf-myndir/Þorgils

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024