Fjölmenn útför Jóhanns Einvarðssonar
Útför Jóhanns Einvarðssonar, fyrrverandi bæjarstjóra og alþingismanns, var gerð frá Ytri Njarðvíkurkirkju í dag. Það var Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur sem jarðsöng en félagar Jóhanns úr Oddfellowstúkunni Nirði báru kistuna úr kirkju.
Jóhann Sigurður Einvarðsson var fæddur í Reykjavík 10. ágúst 1938. Hann lést laugardaginn 3. nóvember á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Jóhann lauk samvinnuskólaprófi 1958 og hélt eftir það til Manchester á Englandi þar sem hann starfaði og stundaði nám í eitt ár. Eftir að heim var komið starfaði Jóhann sem bókari og síðar fulltrúi í fjármálaráðuneytinu til ársins 1966 þegar hann tók við stöðu bæjarstjóra á Ísafirði. Því starfi gegndi hann til ársins 1970 þegar leið hans lá til Keflavíkur. Í Keflavík var Jóhann bæjarstjóri frá árinu 1970 til ársins 1980. Jóhann varð alþingismaður 1979 fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjaneskjördæmi og sat á þingi til 1983 og síðan aftur árin 1987-1991 og 1994-1995. Þá var hann í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1985-1987 og sat Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna 1980 og 1990. Jóhann sat um árabil í stjórn Hitaveitu Suðurnesja og var formaður stjórnar 1975-1979. Hann var formaður stjórnar Sjúkrahúss Keflavíkurlæknishéraðs 1970-1980 og síðar framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurnesja og Heilsugæslustöðvar Suðurnesja. Jóhann kom víða við í félagsmálum, m.a. í handknattleiksforystunni og var í stjórn HSÍ 1974-1976, sat í stjórn fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Keflavík og var formaður þess 1984-1986. Að auki sat Jóhann í ótal nefndum og stjórnum sem tengdust hans störfum og áhugamálum.
Jóhann var félagi í Lionsklúbbi Keflavíkur og einnig í Oddfellowstúkunni nr. 13 Nirði í Keflavík en þar var hann einn af stofnfélögum og síðar heiðursfélagi.
Jóhann lét eftir sig eiginkonuna Guðnýju Gunnarsdóttur húsmóður og þrjú uppkomin börn, Gunnar, Einvarð og Vigdísi.
Oddfellowbræður úr stúkunni nr. 13 Nirði báru kistu Jóhanns, f.v.: Árni Þ. Þorgrímsson, Hilmar Pétursson, Elías Jóhannsson, Björn Bjarnason, Skúli Þ. Skúlason, Páll Ketilsson, Kjartan Már Kjartansson og Gunnar Kristjánsson.