Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjölgun íbúa kallar á fleiri skóla
Helgi Arnarson er sviðsstjóri fræðslusviðs Reykjanesbæjar. VF-mynd/dagnyhulda
Sunnudagur 7. maí 2017 kl. 06:00

Fjölgun íbúa kallar á fleiri skóla

Þörf fyrir frekari skólauppbyggingu á Ásbrú og í Hlíðahverfi - Viðtal við Helga Arnarson, sviðsstjóra fræðslusviðs Reykjanesbæjar

Íbúum í Reykjanesbæ fjölgaði um 7,4 prósent á síðasta ári og gangi spár eftir mun þeim halda áfram að fjölga næstu árin. Samfara fjölgun íbúa þarf að byggja upp innviði, svo sem leik- og grunnskóla. Nýlega var tilkynnt að næsta haust verði skólahúsnæði til bráðabirgða tekið í notkun í Dalshverfi í Innri Njarðvík þar sem Akurskóli er yfirfullur. Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs hjá Reykjanesbæ, og hans samstarfsfólk, hafa staðið í ströngu við undirbúninginn. Ekki verður látið staðar numið í Dalshverfi því ljóst er að þegar Hlíðahverfi, gamla Nikel-svæðið, byggist upp verður örugglega þörf á grunn- og leikskóla þar. Miðað við nýjustu fregnir af uppbyggingu á Ásbrú er þegar komin þörf á að stækka Háaleitisskóla og er það verkefni skyndilega komið í forgang. „Það er óhætt að segja að helstu vaxtarbroddarnir séu í Innri Njarðvík, Hlíðahverfinu og á Ásbrú,“ segir Helgi og bendir á að víðar sé verið að byggja í bæjarfélaginu og þétta byggð en að fjöldi íbúða þar kalli ekki á byggingu nýrra skóla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar tekur fyrstu skóflustunguna að Hlíðahverfi.

Vill að skólinn verði hjartað í hverfinu
Í Dalshverfi búa nú 85 börn sem fara í 1., 2. og 3. bekk næsta haust í tímabundið skólahúsnæði. Helgi segir að jafnvel geti farið svo að fjöldinn verði 120 börn. Gangi áætlanir eftir verður skólahús tilbúið haustið 2018. Nýi skólinn í Dalshverfi verður bæði leik- og grunnskóli og verður mikil áhersla lögð á að kennarar vinni þvert á skólastig og að yngri og eldri nemendur vinni saman að fjölbreyttum viðfangsefnum. Efnt var til samkeppni um hönnun skólans og var tillaga Arkís valin sú besta. Áður en arkitektarnir fengu verkefnið í hendur vann hópur fólks úr ýmsum áttum góða undirbúningsvinnu. Í hópnum voru foreldrar, nemendur, starfsfólk skóla og ýmsir hagsmunaaðilar. „Ferlið kallast „Design Down Process“ og hefur verið notað við undirbúning á byggingum skóla í Reykjavík og víðar,“ segir Helgi. Ferlið byggist á því að hópurinn byrjar að velta fyrir sér hugmyndum um skólann í víðu samhengi og þrengir það svo. „Fyrst velti hópurinn fyrir sér umhverfi og aðstæðum við skólann og hver tækifærin væru. Hugmyndin var að hópurinn gerði sér grein fyrir því hvernig skólinn ætti að vera.“

Meðal hugmynda sem komu fram hjá hópnum voru að þar yrði leikskóli, grunnskóli, frístund, tónlistarskóli og félagsmiðstöð undir sama þaki. Aldrei áður hefur verið byggður grunnskóli í Reykjanesbæ þar sem gert er ráð fyrir frístundaheimili í teikningum, heldur hefur þeim alltaf verið bætt við eftir á. Í kringum skólann verður grænt svæði og verður lögð mikil áhersla á útinám og tengsl við náttúruna og sjóinn. „Eitt af gildum skólans verður sveigjanleiki, til dæmis að skóladagurinn geti byrjað á mismunandi tímum eftir aldri nemenda. Sömuleiðis er mikill áhugi á því að skólinn sé í takt við fjölskyldulíf á 21. öldinni þar sem fjölskyldur eru eins mismunandi og þær eru margar,“ segir Helgi.

Hugmynd Arkís að skóla í Dalshverfi var valin sú besta.

Skólinn er hannaður með það í huga að fólk upplifi sig velkomið þegar það kemur inn í bygginguna. Í miðju skólans er rými sem kallað er hjartað, þaðan sem allar leiðir liggja. Helgi segir hugmyndina að skólinn verði hverfismiðstöð, ekki aðeins fyrir börn, heldur líka fyrir foreldra og aðra íbúa. „Dalshverfið er í nokkurra kílómetra fjarlægð frá miðbæ Reykjanesbæjar og því er mikilvægt að skólinn verði miðstöð fyrir ýmsa viðburði og jafnvel bókasafn. Þannig að hinn almenni íbúi njóti góðs af byggingunni og sömuleiðis að hún sé nýtt vel.“

Um 170 grunnskólanemendur í nýju Hlíðahverfi
Fyrsta skóflustungan að Hlíðahverfi var tekin á dögunum. Gangi áætlanir eftir munu rísa um 500 íbúðir þar á næstu árum. Holtaskóli er sá grunnskóli sem er staðsettur næst hverfinu og að sögn Helga er ekki víst að skólinn geti tekið við öllum þeim grunnskólanemendum sem munu búa í hverfinu og því verður hverfið líklega skilgreint sem nýtt skólahverfi þar sem byggja verður skóla. Samkvæmt spám Reykjanesbæjar verða um 170 börn á grunnskólaaldri í hverfinu árið 2022. Helgi segir einn möguleikann sem nefndur hefur verið að flytja tímabundna húsnæðið úr Dalshverfi í Innri Njarðvík í Hlíðahverfið haustið 2018, verði fyrsti áfangi skólabyggingar tilbúinn. Ljóst er að í hverfinu mun einnig þurfa leikskóla og er enn í skoðun hvernig þau mál verði leyst.

Mikil fjölgun íbúa á Ásbrú
Rúmur áratugur er síðan fyrstu íbúarnir fluttu inn á Ásbrú eftir að Bandaríkjaher yfirgaf varnarsvæðið. Hverfisskólinn þar, Háaleitisskóli, er þétt setinn enda búa um 2.500 manns á svæðinu. „Nú er ljóst að fasteignafélög munu setja nokkur hundruð íbúðir á leigumarkaðinn á næstu mánuðum og misserum. Því munu bæði fylgja tækifæri og áskoranir fyrir Reykjanesbæ. Meðal næstu mála á dagskrá eru því hvernig við viljum byggja upp innviði í hverfinu til framtíðar.“

[email protected]