Fjölga íbúðum fyrir eldri borgara í Grindavík
Bæjarráð Grindavíkur samþykkti á fundi sínum í vikunni að skipa verkefnishóp sem mun hafa það verkefni að leggja fram tillögu að hönnun fjögurra til sex íbúða viðbyggingu við Víðihlíð, sem er hjúkrunardeild fyrir aldraða.
Á næsta fundi bæjarráðs verða verkefni nefndarinnar skilgreind og fulltrúar tilnefndir. Í hópnum verða tveir fulltrúar meirihluta, einn fulltrúi minnihluta, einn fulltrúi eldri borgara og einn fulltrúi starfsmanna Miðgarðs. Skipaður verður verkefnisstjóri með hópnum og ráðstafað fjárheimildum til greiðslu nefndarlauna og hönnunar.
Bygging íbúðanna er ekki einu tíðindin í málefnum eldri borgara í Grindavík því að Félagsmálanefnd bæjarins lagði til við bæjarstjórn á dögunum að haldið verði íbúaþing fljótlega á nýju ári varðandi þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu. Bæjarráð samþykkti tillögu nefndarinnar og hefur falið sviðsstjóra félagsþjónustu og fræðslusviðs að hefja undirbúning með það fyrir augum að fundurinn fari fram fyrir páska.