Fjölga dagforeldrum í Grindavík
- Grindvíkingum fjölgaði um 140 á einu ári
Vöntun hefur verið á dagvistun fyrir ung börn í Grindavík undanfarið. Eins og sagt var frá á vef Víkurfrétta í vikunni skrifuðu rúmlega fjörutíu foreldrar undir bréf til bæjarfulltrúa á dögunum þar sem skorað var á bæjaryfirvöld að bæta úr þeim vanda sem foreldrar standa frammi fyrir þegar fæðingarorlofi líkur. Á vef Grindavíkurbæjar kemur fram að þrír dagforeldrar hafi sótt um starfsleyfi á undanförnum vikum. Eitt dagforeldri er komið með leyfi og tekur til starfa 1. mars og eru hin langt komin með umsóknarferlið.
Niðurgreiðslur til foreldra í Grindavík vegna daggæslu hafa verið hækkaðar og var sú breyting gerð síðasta vor að niðurgreiðslur til foreldra barna 18 mánaða og eldri hækkuðu og greiða foreldrar þá jafnhátt mánaðargjald og greitt er á leikskóla á meðan beðið er eftir plássi þar. Var þetta gert til að bregðast við stækkandi biðlistum á leikskóla bæjarins. Í október 2015 stækkaði leikskólinn Laut þegar 5. deildin bættist við fyrir yngstu nemendur. Þar urðu til 16 ný rými sem fylltust hratt. Í dag eru um 220 leikskólarými í Grindavík.
Grindvíkingum hefur fjölgað ört undanfarin misseri og í byrjun síðasta árs fór íbúafjöldinn yfir 3000. Síðan þá hafa 140 nýjir íbúar bæst í hópinn. Á vef Grindavíkur kemur fram að svo hröð íbúafjölgun skapi þrýsting á grunnþjónustuna og að þörf fyrir leikskóla- og dagforeldrarými sé erfitt að meta fram í tímann í svo örri íbúaþróun. „Grindavíkurbær vinnur hörðum höndum að því að koma til móts við þarfir foreldra ungra barna í bæjarfélaginu, enda hefur ánægja með þjónustu fyrir barnafjölskyldur mælst mikil í könnunum Gallup. Það er metnaður Grindavíkurbæjar að svo verði áfram,“ segir á vef bæjarfélagsins.
Þrátt fyrir fjölgun rýma hjá dagforeldrum og á leikskólum er fyrirsjáanlegt að þær muni ekki anna þörfinni ef íbúaþróun verður áfram jafn hröð. Nýr leikskóli er á deiliskipulagi við Hópsbraut en núverandi áætlanir gera ekki ráð fyrir framkvæmdum við hann fyrr en eftir árið 2020. Með vaxandi fjölgun íbúa og barna í bæjarfélaginu er gert ráð fyrir að endurmeta þurfi þær áætlanir.