Fjöldi smáskjálfta norður af Grindavík
Fjöldi smáskjálfta hafa mælst norður af Grindavík í dag. Skjálftarnir byrjuðu fljótlega uppúr hádegi og hafa verið nokkuð þéttir síðan. Allir eru skjálftarnir frekar litlir. Sá stærsti í dag var 2,4 að stærð og á upptök 3,4 km. norður af Grindavík.
Í gær varð skjálfti upp á 3,0 norðvestur af Krýsuvík.
Á morgun, 19. mars, er liðið eitt ár frá því eldgos hófst í Geldingadölum. Gosið stóð í sex mánuði. Skjálftahrina varð í desember og henni fylgdi kvikuinnskot sem ekki náði upp á yfirborð.
Í vikunni var fyrirlestur í menningarhúsinu Kvikunni í Grindavík þar sem Magnús Tumi Guðmundsson, jarðvísindamaður, ræddi aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli og ræddi næstu mögulegu skref. Rætt verður við Magnús í Suðurnesjamagasíni og Víkurfréttum í næstu viku í tilefni þeirra tímamóta að eitt ár er frá því gaus í fjallinu við Grindavík.