Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjöldi kvenna fór úr vinnu klukkan 14:38
Mánudagur 24. október 2016 kl. 16:11

Fjöldi kvenna fór úr vinnu klukkan 14:38

- Fjöldi samankominn í ráðhúsinu í Reykjanesbæ

Fjöldinn allur af konum og nokkrir karlar komu saman í ráðhúsinu í Reykjanesbæ í dag í tilefni af kvennafrídeginum. Þar var sýnt beint frá baráttufundi við Austurvöll í miðbæ Reykjavíkur. Þær Anna Margrét Ólafsdóttir og Linda Björk Pálmadóttir fengu þá hugmynd í morgun að halda fundinn í Reykjanesbæ og komu skilaboðunum áfram með hjálp samfélagsmiðla og orðið var fljótt að berast. „Það eru greinilega margar konur sem eru að hugsa um launamuninn og vilja berjast gegn honum,“ segir Anna.

Hjá fjölda fyrirtækja og stofnana hefur verið lokað í dag, þar á meðal hjá Landsbankanum í Reykjanesbæ, bókasafninu, Duus-húsum og í leikskólum. „Það er frábært hversu margar eru mættar hér í dag. Það geta ekki allir farið til Reykjavíkur til að taka þátt í baráttufundinum en greinilega margar sem vilja sýna samstöðu,“ segir Linda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi orðsending var við inngang Landsbankans í Reykjanesbæ í dag. Þar var lokað klukkan 14:00 vegna kvennafrídagsins.

Rannsóknir sýna að meðalatvinnutekjur kvenna eru 70,3 prósent af meðalatvinnutekjum karla og því eru þær með 29,7 prósent lægri tekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa þær unnið fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá klukkan 9 til 17.

Kvennafrídagurinn var fyrst á hér á landi 24. október árið 1975 og er talið að um 25.000 konur hafi þá safnast saman í miðbæ Reykjavíkur og er það jafnvel talinn einn stærsti útifundur Íslandssögunnar. Langflestar konur lögðu niður störf þann dag og atvinnulífið lamaðist. Baráttufundir eru haldnir víða um land í dag.

Anna Margrét Ólafsdóttir og Linda Björk Pálmadóttir skipulögðu fundinn í Reykjanesbæ með stuttum fyrirvara. Góð mæting var á fundinn og nær fullt út úr dyrum.