Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjöldi hjúkrunarrýma: Suðurnes langt að baki öðrum landshlutum
Þriðjudagur 14. september 2010 kl. 08:18

Fjöldi hjúkrunarrýma: Suðurnes langt að baki öðrum landshlutum


Suðurnes eru langt að baki öðrum landssvæðum hvað varðar fjölda hjúkrunarrýma sem hlutfall af íbúafjölda. Rýmum hefur fækkað á svæðinu þar sem verið er að fjölga einbýlum á þeim þremur öldrunarstofnunum sem starfandi eru á Suðurnesjum. „Okkur er ekki lengur stætt á að bjóða öllum eldri borgurum að deila herbergi með öðrum,“ segir Sigmar Eðvarðsson, fráfarandi stjórnarformaður SSS, sem vakti máls á þessu á aðalfundi sambandsins um helgina.

Sigmar vitnaði í mannfjöldatölur Hagstofu Íslands. Samkvæmt þeim búa 1.623 einstaklingar 67 ára og eldri á Suðurnesjum. Á svæðinu eru 84 hjúkrunarrými. Í samanburði við aðra landshluta er það harla lítið. Á Vesturlandi eru 1.665 íbúar á þessum aldri og á þá skiptast 221 hjúkrunarrými.  Suðurland er með 260 hjúkrunarrými og 2.555 íbúa 67 ára og eldri.

„Uppbygging 30 hjúkrunarrýma að Nesvöllum mun laga stöðuna eitthvað en samt er enn langt í land. Mikilvægt er að eignaraðilar innan DS sameininst um stefnu til næstu ára eða áratuga, þar sem uppbyggingarárform eru sett niður og þeim forgangsraðað í þeim tilgangi að kraftur og eftirfylgni sveitastjórna sé í takt þegar rætt er við ríkisvaldið um næstu verkefni á sviði öldrunarmála,“ sagði Sigmar ennfremur í máli sínu.
--

Mynd: Til stendur að byggja 30 hjúkrunarrými við Nesvelli. Samt er enn langt í land. Ljósmynd/Oddgeir Karlsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024