Fjölbreytt og fjörug fréttavika
Nýliðin vika var fjörug og fjölbreytt í fréttum hér á Suðurnesjum. Harka var í bæjarmálum í Reykjanesbæ, en einnig var fjölmargt annað áhugavert í fréttum. Meðfylgjandi er yfirlit yfir nokkrar af helstu fréttum liðinnar viku á vef Víkurfrétta, vf.is.
Mánudagur:
Líf og fjör í réttunum
Þórkötlustaðaréttir voru í Grindavík á laugardaginn í ágætu veðri. Eins og við var að búast var margt um manninn. Fjölskyldufólk kemur víða að til að upplifa sannkallaða íslenska sveitastemmningu í réttunum enda ávallt mikið líf og fjör þegar fjárbændur og aðstoðarfólk þeirra dregur í dilka.
Mannlífið er því fjölbreytt kringum þennan árlega viðburð og var m.a. handverkssýning þar sem ýmislegt skemmtilegt var að sjá.
Svipmyndir frá réttardeginum eru komnar á ljósmyndavef Víkurfrétta, sjá hér
Þriðjudagur:
Markaðsstofan opnar glæsilega þjónustuaðstöðu í Leifsstöð
Markaðssstofa Suðurnesja opnaði formlega í dag nýjan upplýsingabás í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Aðstaðan hefur verið rýmkuð til muna og skipulögð þannig að hægt verði að veita fjölbreyttari þjónustu við flugfarþega en hingað til hefur verið unnt. Komið hefur verið upp rekkum með upplýsingum fyrir hvern landshluta og ljósmyndir prýða veggi upplýsingamiðstöðvarinnar.
Boðið verður upp á bókunarþjónustu í upplýsingamiðstöðinni og hefur Markaðsstofan samið við ITA hf um að annast reksturinn í Leifsstöð. Það er von þessara samstarfsaðila að breytingarnar auðveldi gestum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar að skipuleggja ferðir sínar og veiti þeim meira öryggi í ferðum um landið.
VFmynd/elg – Nýi upplýsingabásinn í flugstöðinni er sérlega aðlaðandi. Á myndinni er Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, að flytja opnunaræðuna í dag.
Miðvikudagur:
Sverðin slíðruð á átakafundi í bæjarstjórn
Átakafundur var í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær þar sem umræðan milli fylkinga í fjölmiðlum upp á síðkastið birtist í orðræðu. Greinilegt var að mikil spenna hafði byggst upp milli aðila en sem kunnugt er hefur verið tekist á um það hvort, hvænær og hvernig niðurskurðarhugmyndir upp á 450 milljónir króna hafi verið ræddar í bæjarráði. Eftir orðaskak, bókanir og 15 mínútna fundarhlé var lögð fram yfirlýsing frá þeim bæjarfulltrúum sem sæti eiga í bæjarráði. Í henni fólst sátt þar sem segir m.a. að fulltrúar séu sammála um að forðast upphrópanir sem skaðað geti bæjarfélagið.
Umræðan hófst með því þegar Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknar, sté í pontu og áréttaði að ekkert væri að finna í fundargerðum bæjarráðs sem gæfi til kynna að umræða um niðurskurð hefði farið fram. Lagði hann fram bókun þar sem hann m.a. sagði það siðferðilega rangt að halda slíku fram sem ekki væri rétt.
Því næst sté Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í pontu, og var greinilega mikið niðri fyrir. Sagðist hann taka því mjög alvarlega að vera kallaður lygari. Böðvar skýrði frá því sem fram hefði farið á fundum bæjarráðs 9. og 16. september þar sem fjallað var um erindi Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Böðvar sagði vilja komast til botns í málinu og fá svör. Hann afhenti því næst bæjarráðsfulltrúum minnihlutans fimm fullyrðingar á blaði sem hann bað þá um að svara skriflega játandi eða neitandi.
Árni Sigufússon, bæjarstjóri, tók til máls og taldi misskilning ráða því hvernig mál hefðu þróast og áréttaði að engar tillögur hefðu verið lagðar fram heldur væri verið að vinna þær í nefndum og ráðum. Taldi hann málið hafa verið blásið upp í fjölmiðlum meira en efni stóðu til.
Tekið var 15 mínútna fundarhlé að ósk Friðjóns Einarssonar, bæjarfulltrúa Samfylkingar. Að því loknu var lögð fram sameiginleg yfirlýsing þeirra bæjarfulltrúa sem sæti eiga í bæjarráði. Í henni segir að bæjarfulltrúar séu sammála um að umræða hafi farið fram í bæjarráði um mögulegan niðurskurð en engar tillögur verið lagðar fram eða kynntar, enda ekki komnar fram. Bæjarfulltrúar muni framvegis vinna sameiginlega að lausn til heilla fyrir Reykjanesbæ og forðast upphrópanir í fjölmiðlum sem skaðað geti bæjarfélagið.
Miðvikudagur:
2710 störf hefðu skapast
Um 2710 störf hefðu skapast á byggingartíma þeirra verkefna sem tafist hafa á Suðurnesjum, þ.e. álvers, kísilvers, einkasjúkrahúss, gagnavers og ECA. Kæmist rekstur þessara fyrirtækja í gagnið myndu skapast um það bil 3200 störf. Árstekjur hins opinbera hefðu verið um 16 milljarðar á uppbyggingatímanum næstu tvö til þrjú árin. Þetta segir Einar Magnússon, formaður Atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar.
Einar vakti máls á þessu í umræðu um fundargerðir atvinnu- og hafnarráðs á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Hann velti fyrir sér ástæðunum fyrir þessum töfum og spurði hvort stórnarflokkarnir væru hugsanlega vísvitandi að tefja fyrir þessum verkefnum. Ríkisvaldið þyrfti að breyta um stefnu í atvinnumálum og koma þessum verkefnum í gagn.
Eysteinn Eyjólfsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar, sagði mikilvægasta verkefni bæjaryfirvalda að vinna að uppbyggingu atvinnutækifæra á Suðurnesjum. Það hvíldi á öllum óháð flokkadráttum, bæði bæjarfulltrúm og fulltrúum á Alþingi.
Eysteinn fór fyrir stöðu mála og sagði að verið væri að yfirstíga þá þröskulda sem tafið hefðu fyrir gagnaveri. Verið væri að semja um orku frá Landsvirkjun vegna kísilvers, ECA væri í ferli, undirbúningur stæði yfir vegna byggingu hjúkrunarheimilis að Nesvöllum. Því næst minntist hann á álver í Helguvík.
„Hvar er það statt núna? Á hverju stoppar það, ef það stoppar á einhverju? Jú, þar eru tveir einkaaðilar að glíma um orkuverð, sem sagt Norðurál og þeir sem núna eiga HS Orku, þ.e. Magma. Og þá má spyrja hverjir urðu þess valdandi að tveir einkaaðilar eru núna að glíma um orkuverðið?“
Fimmtudagur:
SAR lýsa ánægju með reglugerðarbreytingu vegna gagnavera
Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi, SAR, lýsa yfir ánægju með framgang mála vegna reglugerðarbreytinga hjá fjármálaráðuneytinu. Stjórnvöld munu koma til móts við ábendingar aðila í gagnaversiðnaðinum og tryggja að Ísland standi fullkomlega jafnfætis samkeppnisaðilum innan ESB enda eindreginn vilji stjórnvalda að gagnaver byggist upp hér á landi. Þetta eru meginskilaboðin í bréfi Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra til stjórnar Samtaka gagnaversfyrirtækja.
Unnið hefur verið að útfærslu lausna á tveimur þáttum sem varða virðisaukaskatt á þjónustu gagnavera. Annars vegar er um að ræða innheimtu virðisaukaskatts af búnaði sem viðskiptavinir innan ESB eiga sjálfir en senda til þjónustu í gagnaverum í öðrum löndum. Hins vegar er um að ræða innheimtu virðisaukaskatts af seldri þjónustu gagnavera til erlendra viðskiptavina. Samtök gagnaverafyrirtækja hafa bent á að jafnstaða íslenskra gagnavera gagnvart keppinautum innan ESB sé forsenda frekari uppbyggingar gagnaveraiðnaðar hér á landi. Í samræmi við áherslu íslenskra stjórnvalda á að skapa hátæknistörf, ýta undir græna hagkerfið og auka fjölbreytni í orkunýtingu hér landi hefur verið unnið að því að koma til móts við óskir gagnaveraiðnaðarins.
Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi munu standa fyrir borgarafundi um atvinnumál í Stapa þann 7. október nk. Fundurinn verður í samstarfi við marga hagsmunaaðila og verður kynntur nánar þegar nær dregur.
Föstudagur:
Gerð verður ný aðrein á Fitjum
Vegagerðin hefur hafið undirbúning að stækkun aðreinar frá Reykjanesbraut inn á Stekk við Fitjar en tíð umferðarslys hafa verið á þessum gatnamótum. Verður ráðist í framkvæmdir nú á haustdögum, samkvæmt því sem fram kom í máli Magneu Guðmundsdóttur, formanns Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar (USK) á síðasta fundi bæjarstjórnar.
USK hafnaði á dögunum ósk Vegagerðinnar þess efnis að lokað yrði fyrir vinstri beygju frá Stekk inn á Reykjanesbraut. Ráðið hvatti hins vegar til þess að ráðist yrði gerð hringtorgs á þessum gatnamótum. USK taldi að með tilliti til þess þjónustukjarna sem liggur við umrædd gatnamót og nærliggjandi íbúðabyggðar, virtist lokun vinstri beygju ekki til þess fallin að bæta flæði umferðar á þessum slóðum.
Magnea upplýsti á bæjarstjórnarfundinum að ný og lengri aðrein yrði gerð á Fitjum þar sem sú sem fyrir er þykir heldur lítil fyrir þá ökumenn sem koma akandi frá Reykjavík og ætla að beygja til hægri af Reykjanesbrautinni. Þeir sem ætli að beygja til vinstri sjái það mjög seint hvort viðkomandi ætli að beygja eða halda áfram í átt að Flugstöðinni. Magnea sagði að ráðist yrði í framkvæmdir nú á haustdögum og myndi þetta vonandi bæta umferðaröryggi á þessum slóðum.
Laugardagur:
Búist við 800 manna innrás frá Eyjum
Búist er við allt að 800 Eyjamönnum á leik Keflavíkur og ÍBV í lokaumferð Pepsi-deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík í dag kl. 14.
ÍBV getur orðið Íslandsmeistari í knattspyrnu með sigri á Keflavík og að því gefnu að Breiðablik misstígi sig gegn Stjörnunni.
Í tilkynningu frá Keflavík, eru stuðningsmenn Keflavíkur hvattir til að mæta á leikinn og yfirgnæfa kórinn frá Vestmannaeyjum.