Fjölbreytt námsframboð í nýju húsnæði
Miklar breytingar hafa verið í sumar hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS). Miðstöðin flutti í glæsilegt húsnæði að Krossmóa 4 og er starfið þar hafið af fullum krafti. Síðasta föstudag var námskrá MSS borin út í hús. Námsframboðið er fjölbreytt að venju og má þar nefna ýmis tómstundanámskeið s.s. prjónanámskeið, ljósmyndanámskeið, vínnámskeið ásamt mörgu fleira.
Að sögn Guðjónínu Sæmundsdóttur, forstöðumanns MSS, eru fjölmörg starfstengd námskeið í boði eins og námskeið fyrir sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga og námskeið sem haldin eru í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands og Símenntun Háskólans á Akureyri. Einstaklingar sem eru í rekstri eða vilja koma hugmyndum sínum á framfæri geta sótt námskeið í boði Atvinnuþróunarráðs Suðurnesja og Vinnumarkaðsráðs Suðurnesja.
Að venju heldur MSS fjölmörg námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Á þessari önn er verður boðið upp á fjölbreyttari námskeið á pólsku s.s. matreiðslunámskeið, bilprófsnámskeið, heimilisbókhald, nuddnámskeið og fleira. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og hvetur Guðjónína alla til að kynna sér námskránna og nýju heimasíðuna sem fór í loftið í vikunni www.mss.is.