Fjölbreytni lögreglustarfsins á Suðurnesjum
Svangur ferðalangur leitaði til lögreglu
Stundum berast sérstakar fyrirspurnir til lögreglunar á Suðurnesjum. Nú á dögunum hafði einstaklingur samband við lögregluna og sagðist vera í vanda staddur, en lögreglan greindi frá þessari skemmtilegu sögu á fésbókarsíðu sinni.
Einstaklingurinn sagðist vera á leið til Íslands og óskaði eftir upplýsingum um heiti og staðsetningu á ákveðnum veitingastað í Reykjanesbæ. Vildi maðurinn vita hvort staðurinn yrði ekki örugglega opinn þegar hann myndi lenda á Keflavíkurflugvelli þar sem hann þyrfti nauðsynlega að bragða á rétt sem í boði er á veitingastaðnum.
Lögreglumenn gátu vel svarað fyrirspurninni en ekki fylgdi sögunni hvort aðilinn hafi náð á veitingastaðinn í tæka tíð, né hvort ferðinni hafi sérstaklega verið heitið til Íslands vegna veitingastaðarins, sem ekki var þó getið á nafn.