Fjölbrautaskólinn og Keilir í eina sæng?
Viðræður um samstarf eða sameiningu Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis á Ásbrú eru hafnar. Mennta- og barnamálaráðherra skipaði í síðustu viku stýrihóp um eflingu framhaldsskóla. Hópnum var falið að leggja fram tillögur að framtíðarskipulagi til að auka gæði náms og bregðast við breytingum í umhverfi skólanna.
Málið var kynnt á starfsmannafundum hjá FS og Keili í vikunni.
Að frumkvæði stýrihópsins og mennta- og barnamálaráðuneytisins hafa skólameistarar eftirfarandi skóla hafið viðræður um aukið samstarf skólanna um fagleg og rekstrarleg málefni eða sameiningu skólanna í nýjar og öflugri einingar.
Skólastjórnendur munu vinna með stýrihópnum að gerð skýrslu um kosti og galla þessara sviðsmynda og leggja fyrir mennta- og barnamálaráðherra fyrir lok maí. Í störfum hópsins verður haft samráð við fulltrúa nemenda, kennara og starfsfólk skólanna og aðra hagaðila. Niðurstaða viðræðna mun ekki hafa áhrif á skipulag eða innihald náms á komandi skólaári hjá nemendum og starfsfólki skólanna og heldur ekki hjá þeim nýnemum sem innritast í skólana í vor.