Fjölbrautaskóli Suðurnesja þriðja besta stofnun ársins
Fjölbrautaskóli Suðurnesja lenti í þriðja sæti í könnuninni um Stofnun ársins 2017. Skólinn er í hópi stofnana með 50 starfsmenn eða fleiri. Stéttarfélag í almannaþjónustu, SFR, stóð fyrir könnuninni og voru niðurstöðurnar kynntar í vikunni. Lögreglan á Suðurnesjum lenti í 83. sæti sem er það fjórða neðsta hjá stofnunum með 50 starfsmenn eða fleiri. Sýslumaðurinn á Suðurnesjum hafnaði í 43. sæti, sem er þriðja neðsta, í flokki stofnana með 20 til 49 starfsmenn.
Könnunin er gerð með þeim hætti að spurningalisti er lagður fyrir startfsfólk um 200 stofnana þar sem það var innt eftir mati á inra starfsumhverfi stofnunar sinnar. Svör fengust frá ríflega 11.000 starfsmönnum og var svarhlutfall um 55 prósent.
Efstu stofnanir í flokki stórra stofnana með 50 starfsmenn eða fleiri voru Reykjalundur og Ríkisskattstjóri, og FS, líkt og áður sagði. Hjá meðalstórum stofnunum, með 20 til 49 starfsmenn, voru Menntskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Einkaleyfastofan efst. Hjá minni stofnunum með færri en 20 starfsmenn voru Persónuvernd, Hljóðbókasafn Íslands og Geislavarnir ríkisins efst.
Nánar má lesa um niðurstöður könnuninnar hér.