Fjögurra mánaða skilorð fyrir að ráðast á lögregluþjón og reyna að stela lögreglubíl
Pólskur karlmaður í Njarðvík var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa slegið lögregluþjón og reynt að stela lögreglubifreið á lögreglustöðinni í Keflavík. Þá var hann sektaður um 280 þúsund krónur og sviptur ökuleyfi í fjögur ár fyrir ölvunarakstur.
Samkvæmt lögregluskýrslu frá október 2005 eru helstu málavextir þeir að lögreglu barst tilkynning frá fjarskiptamiðstöð um að pólskur maður hefði hringt í 112 og sagt „Polish Schnell, Schnell, morder“ en síðan lagt á. Hefði komið fram í tilkynningunni að viðkomandi hefði hvorki talað íslensku né ensku og að símtalið hefði komið frá húsi í Njarðvík.
Sex lögreglumenn fóru á vettvang og þurftu að beita fortölum til að að fá manninn til að opna íbúðina. Ákærði var einn í íbúðinni, talsvert ölvaður og var töluvert blóð á gólfi íbúðarinnar en sýnilega mest í eldhúsi. Á eldhúsborði var blóðugur hnífur og þá var annar blóðugur hnífur á borði á eldhúsinnréttingu. Var lagt hald á báða hnífana.
Ákærði var færður á heilsugæslustöð til aðhlynningar en hann var með marga skurði á vinstri handlegg. Illa gekk að ræða við manninn vegna ölvunar hans og ástands. Var hann því næst færður á lögreglustöðina.
Skömmu eftir að komið var með ákærða á lögreglustöðina í Keflavík óskaði hann eftir því að fá að fara á salerni áður en hann yrði færður í fangaklefa. Var leyfið veitt og hurðinni að salerninu læst á eftir ákærða. Þegar hann síðan bankaði á dyrnar opnaði varðstjóri fyrir honum. Þegar ákærði steig út af salerninu sló hann varðstjórann eitt hnefahögg á vinstri kjálka. Varðstjórinn vankaðist í augnablik við höggið og komst ákærði inn í bifreiðageymsluna og inn í lögreglubifreiði sem þar stóð með lyklum í.
Ákærða tókstt að gangsetja bifreiðina áður en varðstjórinn komst að henni og reif í handbremsu hennar. Ákærða tókst að spóla bifreiðinni áfram svo hún rakst á syðri bifreiðageymsluhurðina. Dreif þá að aðra lögreglumenn sem færðu manninn í fangaklefa.
Tjón varð bæði á lögreglubifreiðinni og hurðinni.
Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og bar m.a. fyrir sig minnisleysi og geðræna erfiðleika. Út frá framburði læknis taldi dómurinn hins vegar að maðurinn væri sakhæfur og var hann því sakfelldur.
Ákærði hefur áður komist í kast við lögin og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Einnig var horft til þess hve mikill dráttur hafði á rannsókn og ákvörðun um saksókn.