Fjögur fyrirtæki í útboði á íþróttamannvirkjum
Sátt um framkvæmdir í Grindavík
Framtíðaruppbygging íþróttamannvirkja hefur verið í undirbúningi undanfarin misseri og nú styttist í að framkvæmdir hefjist. Kynningarmyndband um uppbygginguna má sjá hér. Bæjarráð hefur að loknu forvali samþykkt að fjögur fyrirtæki verði heimilað að taka þátt í útboðinu. Þau eru: ÍAV hf., Jáverk ehf., Grindin ehf. og H.H. Smíði ehf.
Fram kemur í bókun meirihluta bæjarstjórnar Grindavíkur að uppbygging af þessari stærðargráðu muni alltaf vera umdeild en samþykki sex bæjarfulltrúa af sjö í bæjarstjórn þykir merki um góða samstöðu í málinu. Vinnan við framkvæmdir við íþróttamannvirki Grindavíkur hefur staðið yfir í fjölda ára og er vinna núverandi bæjarstjórnar unnin á grunni vinnu sem átti sér stað á fyrri kjörtímabilum. Fram kemur einnig að við gerð fjögurra ára fjárhagsáætlunar Grindavíkurbæjar var tekið mið af þeim aukna rekstrarkostnaði sem fylgir nýju viðbyggingunni en einnig af þeirri hagræðingu sem næst með að sameina starfsstöð íþróttahúss, sundlaugar og knattspyrnudeildar. Einnig verður að horfa til þeirrar auknu þjónustu er bygginging veitir almenningi, íþróttafólki og starfsfólki.
Grindavíkurbær er vel fjárhagslega statt bæjarfélag og getur því framkvæmt á tímum sem þessum til að skapa atvinnu í samfélaginu. Uppbyggingin er áfangaskipt þannig að hægt er að fresta framkvæmdum eftir hvern áfanga ef umsvif í einkageiranum hafa aukist eða ef fjárhagsstaða sveitarfélagsins hefur breyst.