Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjársvelt og svikin ár eftir ár - komið að skuldadögum
Þriðjudagur 1. september 2020 kl. 01:43

Fjársvelt og svikin ár eftir ár - komið að skuldadögum

Díana Hilmarsdóttir bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og forstöðumaður hjá Björginni - Geðræktarmiðstöð Suðurnesja sendir Svandísi Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, tóninn í færslu á Facebook á mánudagskvöld. Tilefnið er fjárveiting til Sjúkrahússins á Akureyri og á sama tíma fjársvelt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Díana segir Suðurnesjamenn bæði fjársvelta og svikna ár eftir ár og komið sé að skuldadögum.

„Ég samgleðst innilega með Sjúkrahúsinu á Akureyri að hafa fengið styrk uppá 71 milljón til endurnýjunar á myndgreiningarbúnaði, ég efast ekki um þörfina á því. Ég velti því samt sem áður fyrir mér hvar heilbrigðisráherra datt niður á 71 milljón króna bara sí svona á þessum erfiðu tímum. Mig langar að benda háttvirtum heilbrigðisráðherra á tilvist stofnunar sem heitir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Heilbrigðisstofnun sem sinnir öllum Suðurnesjum og hefur verið fjársvelt til margra ára og ansi margt sem hefur drabbast niður og þarf úrbætur á. Að svæðið okkar sé alltaf aftast á merinni þegar kemur að fjárveitingum til heilbrigðismála og ef því er að skipta einnig annarra mála er mér algerlega óskiljanlegt. Að upplifa sig sem annars flokks þjóðélagsþegn trekk í trekk er vond tilfinning sem engin á að þurfa að upplifa. Að íbúar hafi verið með ákall eftir úrbótum hér í mörg ár án þess að neitt sé aðhafst er vond tilfinning. Að íbúar hér sjái sig knúna til að skrá sig á heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu til að fá viðeigandi læknisþjónustu er alls kostar ekki í lagi og algerlega óforsvaranlegt. Við íbúar hér á Suðurnesjum viljum vera viðurkennd sem fyrsta flokks þjóðfélagsþegnar sem við svo sannarlega erum og við eigum rétt á sömu þjónustu og aðrir án þess að þurfa að leita út fyrir Suðurnesin eftir grunnþjónustu. Það er löngu kominn tími til að girða sig í brók og koma heilsugæslumálum hér á svæðinu í það stand sem er fólki sæmandi og bjóðandi og það STRAX. Við þurfum ekki bara 71 milljón háttvirtur heilbrigðisráðherra, við þurfum 71 milljón sinnum ég veit ekki hvað mikið fyrir það að hafa verið fjársvelt og svikin ár eftir ár eftir ár. Það er komið að skuldadögum,“ segir Díana Hilmarsdóttir í pistlinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024