Fjarnám – hentar það þér?
Um fjarnám Frumgreinamenntar Opna háskólans
Frumgreinanám Háskólans í Reykjavík byggir á gamalli hefð sem á rætur að rekja til frumgreinadeildar Tækniskóla Íslands en sá skóli var stofnaður 1964. Tilgangur frumgreinanáms Háskólans í Reykjavík er að að mynda nokkurs konar brú milli iðnmenntunar, atvinnulífs og háskólanáms. Nemendurnir eru því fjölbreyttur hópur iðnaðarmanna annars vegar og fólks með mikla starfsreynslu hinsvegar. Allir keppa að sama markmiði, að öðlast hagnýtan og markvissan undirbúning fyrir háskólanám.
Lengst af var námið eingöngu í boði sem staðarnám en frá vorönn 2008 hefur nemendum staðið til boða fjarnám, sem m.a. er kennt í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða. Fjarnám er kjörin leið fyrir þá sem búa úti á landi og geta því ekki vegna búsetu mætt í kennslustundir. Fjarnám er jafnframt góður kostur fyrir þá sem eru í vinnu og hafa þess vegna ekki tök á því að vera í fullu námi.
Haustið 2009 verða 19 áfangar frumgreinanámsins í boði í fjarnámi. Hægt er að taka hálfa- heila önn eða staka áfanga ef fólk kýs að fara hægar í námið. Allir áfangar eru þrjár einingar.
Fyrirkomulag fjarnámsins er með þeim hætti að hver önn stendur yfir í 15 vikur og síðan eru próf. Háskólinn í Reykjavík er samstarfi við símenntunarmiðstöðvar og fræðslunet um allt land ef nemendur hafa ekki tök á því að taka prófin í Reykjavík.
Við upphaf náms er staðarlota í Reykjavík þar sem nemendur hitta samnemendur og kennara. Í staðarlotu er kennt á innra kerfi skólans og kennsla byrjar í hverjum áfanga. Í framhaldinum fá nemendur svo verkefni vikulega, hljóðglærur og annað efni sem nýtist við fjarnámið. Um miðja önnina er aftur staðarlota og í þeirri lotu eru verklegar æfingar í eðlisfræði og efnafræði, ræðumennska í íslensku og annað það sem erfiðara er að gera yfir netið.
Sú reynsla sem komin er á fjarnámið lofar góðu og þeir sem hafa hug á undirbúningsnámi fyrir áframhaldandi nám í háskóla ættu að hugleiða þennan möguleika. Oft heldur fólk að það þurfi alls konar tæki og tól til að geta verið í fjarnámi en það sem til þarf er tölva og nettenging.
Fjarnám er ávallt strembið, sérstaklega þegar maður sér ekki kennara né samnemendur sína. Það er því við því að búast að það myndist töluverð hætta á því að maður upplifi sig eins og maður sé einn á báti. Fjarnám frumgreinadeildar HR hefur fundið leið framhjá þessu ,að mér finnst, með mikið af hljóðfyrirlestrum frá frábærum kennurum, starfslotum þar sem nemendur og kennarar hittast og maður fær það á tilfinninguna að maður sé hluti af hóp en alls ekki „einn á báti“. Fyrir mig, þrítugan uppgjafa sjómann sem hætti að fylgjast með í áttunda bekk í grunnskóla,kveið ég því að hefja nám að nýju eftir 15 ára fjarveru úr menntakerfinu en kvíðin breyttist fljótt í ánægjulega fróðleiksfýsn undir handleiðslu frábærs kennaraliðs sem er ávallt í stakk búið til að hjálpa til þegar maður siglir í strand með lærdóminn.
„Vikuleg verkefnaskil halda manni stanslaust við efnið og umsagnir kennara við hvert og eitt verkefni hjálpa manni til að skilja efnið til hlítar. Í eðlisfræðinni er efnið ekki tekið neinum vettlingatökum heldur ráðist beint í það að sjá formúlurnar lifna við í tilraunum í aðstöðu HR. Kennarar eru mjög fljótir að svara öllum fyrirspurnum og virðast hafa drífandi metnað til að gera efnið eins auðskiljanlegt eins og hægt er. Slíkur metnaður er sem betur fer smitandi og skilar sér í góðum einkunnum nemenda.“
(Nemandi í fjarnámi vorið 2009)
Hægt er að afla sér nánari upplýsinga um fjarnámið og hvaða áfangar verða í boði á haustönn 2009 á heimasíðu Háskólans í Reykjavík www.hr.is Frumgreinar – Undirbúningur fyrir háskólanám.
Málfríður Þórarinsdóttir,
forstöðumaður frumgreina.