Fjárlagafrumvarp gegn hagsmunum launafólks
– segir í ályktun og áskorun VSFK
Stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis lýsir miklum vonbrigðum með þær niðurskurðarhugmyndir sem fram koma í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í ályktun og áskorun stjórnar VSFK.
„Frumvarpið sýnir á grímulausan hátt fyrir hverja þessi ríkisstjórn starfar. Og það er ekki venjulegt launafólk í landinu. Á fyrsta starfsári sínu skerti ríkisstjórnin tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða króna til hagsbóta fyrir þá efnamestu í samfélaginu. Nú ræðst hún með niðurskurðarhnífinn að þeim sem síst skyldi. Atvinnulausum, lífeyrisþegum, sjúklingum, þeim sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda og þeim sem hafa minnstu menntunina. Er þá ónefndur matarskatturinn sem mun hækka matarreikning fjölskyldna um tugi þúsunda króna á ári,“ segir í ályktuninni.
Stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur skorar á ríkisstjórnina að draga til baka niðurskurðarhugmyndir sem koma við þá sem lökust hafa kjörin.