Fréttir

Fjárhagur Suðurnesjabæjar á traustum grunni
Frá fundi í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar á nýliðnu ári.
Fimmtudagur 3. janúar 2019 kl. 14:08

Fjárhagur Suðurnesjabæjar á traustum grunni

- Skuldahlutfall í árslok 2019 er áætlað 102,2% og handbært fé verði 712 milljónir króna

Á fundi bæjarstjórnar þann 19. desember sl var samþykkt fyrsta fjárhagsáætlun sameinaðs sveitarfélags Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs.  Niðurstöður og helstu lykiltölur áætlunarinnar sýna fram á að hið nýja sameinaða sveitarfélag stendur á styrkum stoðum, bæði rekstrarlega og efnahagslega. Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því sameining sveitarfélaganna tók gildi og nýtt sveitarfélag hóf starfsemi, hefur verið unnið að því að sameina ýmsa þætti, svo sem bókhaldskerfi og ýmis kerfi sem því tengist. Þrátt fyrir það tókst að ljúka við gerð rekstraráætlunar, en í upphafi árs 2019 mun bæjarstjórn taka endanlegar ákvarðanir um fjárfestingar og framkvæmdir 2019.
 
Heildartekjur sveitarfélagsins árið 2019 eru áætlaðar um kr 4 milljarðar.  Heildarútgjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði eru kr. 3,4 milljarðar.  Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði, þ.e.a.s. framlegð er áætluð kr. 554 milljónir, afskriftir eru áætlaðar kr. 217 milljónir og fjarmagnsgjöld umfram fjármunatekjur kr. 189 milljónir.  Rekstrarniðurstaða í samstæðu sveitarfélagsins er jákvæð kr. 148 milljónir.
 
Heildareignir sveitarfélagsins í árslok 2019 eru áætlaðar kr. 8,1 milljarðar.  Heildar skuldir og skuldbindingar kr. 4,1 milljarðar, þar af lífeyrisskuldbindingar kr. 887 milljónir. Langtímaskuldir eru áætlaðar að verði kr. 2,6 milljarðar, þar af við lánastofnanir kr. 2,5 milljarðar.  Áætlað er að skuldahlutfall í árslok 2019 verði 102,2% og skuldaviðmið samkvæmt sveitarstjórnarlögum 62,1%.
 
Í sjóðstreymisyfirliti kemur fram að veltufé frá rekstri verði um kr. 500 milljónir, afborganir langtímaskulda kr. 180 milljónir.  Áætlað er að fjárfestingar verði kr. 290 milljónir og verða teknar ákvarðanir um einstök verkefni á nýju ári, eins og fram kemur hér að framan. Handbært fé í árslok 2019 er áætlað kr. 712 milljónir.
 
Samkvæmt framansögðu uppfyllir sveitarfélagið ákvæði sveitarstjórnarlaga um efnahagslega stöðu, bæði hvað varðar niðurstöðu rekstrar og um skuldastöðu, þar sem skuldahlutfall verður undir þeim mörkum sem lög kveða á um.
 
Með samþykkt fjárhagsáætlunar hefur bæjarstjórn lokið við að samræma gjaldskrár, en í nokkrum liðum var einhver munur á gjaldskrám Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs.  Álagningarhlutfall útsvars verður 14,52%, sem er það sama og hefur verið.  Álagningarhlutfall fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði var lækkað úr 0,45 í 0,33%, með því er bæjarstjórn að koma til móts við íbúðaeigendur vegna þess hve fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkaði frá síðustu álagningu. Álagningarhlutfall fasteignaskatts af opinberum byggin verður 1,32% og af atvinnuhúsnæði 1,65%.  Lóðarleiga af lóðum í landi sveitarfélagsins verður 1,5%, fráveitugjald vegna íbúðarhúsnæðis verður 0,14%, fráveitugjald vegna atvinnuhúsnæðis 0,10% og vatnsgjald hjá Vatnsveitu Sandgerðis verður 0,17%.  Þá samþykkti bæjarstjórn viðmið um afslætti til elli-og örorkulífeyrisþega af álögðum fasteignaskatti.
 
Almenn þjónustugjaldskrá og gjaldskrá Sandgerðishafnar eru hækkaðar um 4% frá gjaldskrá 2018.
 
Í fjárhagsáætlun felast ýmsar ákvarðanir bæjarstjórnar um starfsemi sveitarfélagsins og þjónustu við íbúana.  Sem dæmi má nefna að fjárhæð hvatastyrks til barna og unglinga er hækkuð og verður kr. 35.000, barnafjölskyldur geta notið umönnunarbóta og niðurgreiðslu vegna dagforeldra fyrir yngstu börnin. Áfram er lögð áhersla á öfluga og góða starfsemi grunnskólanna og tónlistarskólanna, ásamt því að bjóða góða þjónustu í leikskólunum.  Áfram geta íbúar sveitarfélagsins notið þess að fara frítt í sund, sem og gjaldfrjálsan aðgang að bókasöfnunum. Aldraðir og öryrkjar eiga kost á því að komast í líkamsrækt endurgjaldslaust og áfram verður haldið með heilsueflingu fyrir aldraða. 
 
Hafin verðu vinna við nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, unnið er að því að móta nýtt fræðslusvið þannig að sveitarfélagið annist sjálft þjónustu við skólana,
 
Hér eru aðeins tilgreind örfá dæmi um starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins sem felst í fjárhagsáætlun. 
 
Áfram verður haldið við að byggja upp og efla starfsemi sveitarfélagsins, þar sem þjónusta við íbúana og velsæld þeirra verður í forgangi, um það er full samstaða meðal kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn. 
 
Bókun bæjarstjórnar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar segir m.a.: „Að þessu sinni fer vinnsla fjárhagsáætlunar fram við óvenjulegar aðstæður þar sem sameining sveitarfélaganna tók gildi fyrir rúmum 6 mánuðum og ekki hefur verið eðlilegt svigrúm til þess að vinna að áætlunargerðinni með venjubundnum hætti. Fjárhagsáætlun verður nánar yfirfarin á nýju ári, einnig mun bæjarstjórn taka ákvarðanir um einstakar fjárfestingar í byrjun árs 2019. Fjárhagur og rekstur sveitarfélagsins stendur á traustum grunni og hefur mikla möguleika til framtíðar til að eflast enn frekar með aukinni þjónustu við íbúana og samfélagið í heild“.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024