Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar samþykkt
Miðvikudagur 5. janúar 2011 kl. 18:13

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar samþykkt

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2011 var samþykkt í bæjarstjórn með 7 atkvæðum meirihlutans en 4 fulltrúar minnihlutans sátu hjá. Miklar umræður urðu á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi. Minnihlutinn sakaði sjálfstæðismenn um óráðsíu og yfirkeyrslu í rekstri undanfarin tvö kjörtímabil. Meirihlutinn var ósammála og sagði mikið og nauðsynlegt uppbyggingarstarf hafa átt sér stað og væri undirbúningur fyrir framtíðar atvinnutækifæri í Reykjanesbæ sem mörg bíða þess að komast í gang.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ kemur fram að Fjárhagsáætlun 2011 hafi verið unnin af öllum ráðum og nefndum bæjarins, með tillögum frá starfsmönnum og íbúum. Lagt hefur verið kapp á að fulltrúar allra stjórnmálaafla í bæjarstjórn hafi haft aðkomu að áætlunarvinnunni.

Reynt er að skerða ekki grunnþjónustu við bæjarbúa árið 2011, og er haft að leiðarljósi að hlúa að börnum og unglingum. Gjaldskráhækkunum er stillt í hóf og er enn frítt í sund fyrir börn og eldri borgara sem og frítt í strætó. Leikskólagjöld er með þeim lægstu í samanburði við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan Reykjavík. Einnig er máltíð fyrir börn í grunnskólum lægst hjá Reykjanesbæ ef miðað er við höfuðborgarsvæðið. Talsverð hagræðing hefur náðst í stjórnsýslu bæjarins. Kostnaður vegna nefnda hefur lækkað vegna launalækkunar og fækkun funda. Talsverðar starfshlutfallsskerðingar hafa verið í stjórnsýslunni. Reynt er að ráða ekki í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til. Hagrætt er í leiðarkerfi strætó.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur bæjarsjóðs nemi um 121,4 m.kr. og afgangur samstæðu verði um 396,4 m.kr. Rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði, að teknu tilliti til reiknaðra liða nemur um 201,4 m.kr. Eignir pr. íbúa eru áætlaðar 2.494 þús.kr. og skuldir pr. íbúa 2.034 þús.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað um 881,3 m.kr. fyrir bæjarsjóð og um 2.401,2 m.kr. fyrir samstæðu.

Umfjöllun í prentútgáfu VF á morgun.

Hér að neðan má sjá bókanir allra stjórnmálaflokkanna við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar 2011:

Bókun Samfylkingarinnar:

Fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2011 er einsdæmi í sögu Reykjanesbæjar vegna þess niðurskurðar sem henni fylgir og þeim fjölda óvissuþátta sem í henni felast. Ljóst er að niðurskurður í öllum málaflokkum er staðreynd þrátt fyrir gefin loforð sjálfstæðismanna um annað og að fjárhagsstaða Reykjanesbæjar og tengdra fyrirtækja er með þeim hætti að ekki verður við unað.
Sparnaður sjálfstæðismanna birtist helst í:

• Lækkuðu starfshlutfalli bæjarstarfsmanna um 10 til 20%.
• Skerðingu í öllum málaflokkun um 30 til 40%.
• Framkvæmdastoppi og viðhaldi í lágmarki.
• Miklum skerðingum á framlögum til mennta, tómstunda og íþróttamála.
• Að lögbundin þjónusta sveitarfélagsins er komin undir viðmiðunarmörk
• Að fjárhagsaðstoð til bágstaddra er lægst á Íslandi í Reykjanesbæ.
• Hækkun fasteignagjalda þrátt fyrir lækkun fasteignamats.

Vegna slælegrar stjórnunar og innihaldslausra loforða undanfarin kjörtímabil er Reykjanesbær ekki í aðstöðu til létta íbúum byrðarnar á erfiðum tímum.
Reykjanesbær skuldar án samstæðu 29 miljarða eða 400% af tekjum
Skuldir bæjarsjóðs hafa meira en fimmfaldast frá 2002. Voru rúmlega 5 miljarðar en eru nú árið 2011 rúmlega 29 miljarðar.
Reykjanesbær skuldar með samstæðu 42 miljarða
Þar vegur mest fimmföldun skulda Reykjaneshafnar frá 2002 . Árið 2002 voru skuldir hafnarinnar 1,2 miljarðar en eru nú tæplega 6 miljarðar.
Þá eru B-hluta fyrirtæki Reykjanesbæjarr, Víkingaheimar, Reykjaneshöfn og Kalka öll í greiðslufalli og óljóst enn sem komið er hvernig þeirra mál verða leyst. Ljóst er þó að rekstur stendur ekki undir skuldum og bæjarsjóður mun ekki/getur ekki hjálpað til.
Af ofangreindu er ljóst að fjármál Reykjanesbæjar eru í ólestri, eytt hefur um efni fram og nú er komið að skuldadögum.
Afleiðingar viðvarandi rekstrarhalla sjálfstæðismanna á bæjarsjóði Reykjanesbæjar síðustu árin munu nú skella á íbúum bæjarins af fullum þunga á árinu 2011 með minni þjónustu og hærri álögum.

Ábyrgð okkar sem sitjum í bæjarstjórn á hverjum tíma er mikil, við erum fulltrúar bæjarbúa sem treysta okkur fyrir rekstri bæjarfélagsins. Við verðum að rísa undir því hlutverki öll sem eitt og og vera tilbúin að axla þá ábyrgð að breyta stefnu okkar í samræmi við stöðu efnahagslífsins á hverjum tíma. Bæjarfulltrúum öllum ber skylda til að skoða allar leiðir til úrlausnar og leita að heildstæðri lausn á fjárhagsstöðu bæjarsjóðs.

Skýrt kemur fram í lögum að þegar sveitarfélög geta ekki lengur staðið í skilum skuli leita aðstoðar Sveitastjórnarráðuneytisins sem getur heimilað jöfnunarsjóði sveitarfélaga að veita bæjarsjóði styrk eða lán.

Við ítrekum þá skoðun okkar að slík aðstoð myndi nýtast Reykjanesbæ vel og gefa bæjarstjórn ráðrúm til að ráðast í nauðsynlega gagngera heildarendurskoðun og uppstokkun á fjármálum sveitarfélagsins.

Samhliða þessu þarf að skipa rannsóknarnefnd þriggja óháðra sérfræðinga – eins og fulltrúar Samfylkingar lögðu fram við bæjarstjórn í september byrjun - sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjanesbæjar.

Við verðum öll að axla ábyrgð, bæta stjórnsýsluna og setja deilumál til hliðar og í þann farveg sem líklegastur er til að skapa íbúum Reykjanesbæjar bjartari framtíð.

--

Bókun Framsóknarflokksins:
Þessi fjárhagsáætlun er ein sú raunhæfasta sem sést hefur í mörg ár þar sem ekki er gert ráð fyrir tekjum af hugsanlegum atvinnuverkefnum. En líkurnar á að hún standist er litlar.
Reykjanesbær á við stórkostlegan skuldavanda að etja. Vanda sem er að mestu tilkominn vegna yfirkeyrslu í rekstri og vanhugsuðum aðgerðum. Efnahagslegar þrengingar síðustu missera hafa vissulega haft áhrif á fjárhagslega stöðu bæjarins, en það er alls ekki eina skýringin. Í töflu hér að neðan má sjá þróun skuldahlutfalls  bæjarsjóðs og samstæðu áranna 2004 til 2009 hefur skuldaþol (greiðslugeta) bæjarsjóðs verið mun lægri en skuldir. 
Ef fjárhagsáætlun stenst og líka sú tveggja ára áætlun sem í gildi er,  þar sem 3ja ára fjárhagsáætlun hefur ekki komið til umræðu enn, þá er skuldaþolið loks komið yfir skuldirnar árið 2012.  Eins og kom fram í máli bæjarstjóra í hádegisfréttatíma útvarpsins mánudaginn 3. janúar sl, tekur það 5-10 ár að ná því niður á það hámark sem Eftirlistnefnd með fjármálum sveitarfélag hefur sett. 
Greiðslubyrði  bæjarsjóðs og samstæðu  er og verður  mjög erfið.  Á næsta ári þarf að endurfjármagna eða greiða upp lán uppá um tæpa 5 milljarða.
Áætla má að vaxtabyrði áranna 2011 til 2014 verði rúmlega eitt þúsund milljónir á ári eða tæplega 10% af árlegum tekjum bæjarins.  Alls  4 milljarða á næstu fjórum árum. Það eru miklir peningar og samsvara öllu því fé sem áætlað er í íþrótta- og æskulýðsmál eða félagsþjónustu, án málefna fatlaðra, í áætlun 2011.
En hvernig getum við gert betur?
Það þarf að efla eftirlit og ábyrgð með áætlunum og tryggja það að einstakir málaflokkar fari ekki framúr áætlunum ár eftir ár. Við þurfum að bregðast strax við þegar sýnt er að áætlun er ekki að standast.  Stjórnendur þurfa að axla meiri ábyrgð samhliða erfiðum verkefnum, þ.m.t. bæjarstjóri, það er jú á hans ábyrgð að framfylgja samþykktum fjárhagsáætlunum.
Það er léleg stjórnsýsla að bregðast aðeins við að hausti til þegar allt er komið í óefni.
Algild venja í fjárhagsáætlanagerð er að hafa allan vara á við að áætla tekjur. Þ.e. að reyna vísvitandi að vantelja þær. En hinsvegar að reyna ofáætla allan kostnað og gjöld með því má auka líkur á að áætlunin standist. Í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar sem hér er til umræðu er hið gagnstæða notað. Hér eru tekjur ofáætlaðar en kostnaður og gjöld vanáætluð.
 
Framsóknarmenn í Reykjanesbæ vona að sjálfsögðu að þau atvinnuverkefni sem eru í burðarliðnum verði að veruleika. En það eitt og sér er ekki nóg til laga fjárhag bæjarfélagsins. Við verðum að taka rækilega til í  allri stjórnsýslunni, áætlanagerð og eftirliti.
 
--

Bókun Sjálfstæðisflokksins:

Auknar atvinnutekjur snúa fjárhagsstöðu hratt við


Reykjanesbær hefur fylgt þeirri stefnu að sýna aðhald í rekstri og óvíða er kostnaður á íbúa lægri en í Reykjanesbæ, þrátt fyrir hátt þjónustustig. Starfsfólk Reykjanesbæjar hefur lagt á sig mikla vinnu við að hagræða enn frekar sem leiðir til þess að unnt er að leggja fram rekstraráætlun ársins 2011 með afgangi fyrir afskriftir og fjármagnsliði sem nemur 466 milljónum kr. Veltufé frá rekstri er áætlað að nemi 881 milljón kr. fyrir bæjarsjóð en 2,4 milljörðum kr. fyrir samstæðu. Þetta fjármagn verður nýtt til greiðslu skulda
Fjárhagsáætlun 2011 hefur verið unnin af öllum ráðum og nefndum bæjarins, með tillögum frá starfsmönnum og íbúum. Lagt hefur verið kapp á að fulltrúar allra stjórnmálafla í bæjarstjórn hafi haft aðkomu að áætlunarvinnunni.


Rekstrarafgangur
Heildartekjur bæjarsjóðs nema um 8,9 milljörðum kr. og tekjur samstæðu eru áætlaðar um 13,2 milljarðar kr.
Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) hjá bæjarsjóði er um 5,7% af tekjum en um 21,7% hjá samstæðu.
Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða verður rekstrarafgangur bæjarsjóðs 121,3 milljón kr. en samstæðu Reykjanesbæjar 396,4 milljónir kr.
Ekki gert ráð fyrir neinum nýjum tekjum í bæjarsjóð vegna nýrra atvinnuverkefna
Vandi Reykjanesbæjar hefur tengst láglaunastörfum á svæðinu og atvinnuleysi. Skatttekjur á íbúa Reykjanesbæjar eru mun lægri en meðaltekjur íbúa á landinu. Þess vegna hefur það verið og verður forgangsmál forystu Reykjanesbæjar að skapa atvinnugrunn fyrir íbúa sem skilar þeim hærri tekjum og þar með bæjarfélaginu um leið. Íbúar og landsmenn allir þekkja þá baráttu. Þrátt fyrir að mörg háttlaunuð atvinnuverkefni hafi tafist verulega, er það fullvissa forystu Reykjanesbæjar að úr rætist á þessu ári. Uppbygging sem tengist jarðauðlindagarði á Reykjanesi, álveri og kísilveri í Helguvík, sjúkrahúsi, heilsustarfsemi, skólasamfélagi Keilis og rafrænu gagnaveri að Ásbrú, ferðaþjónustu og ECA flugverkefni á Keflavíkurflugvelli, auk margra minni nýsköpunarverkefna, mun sannarlega styrkja stöðu samfélagsins til lengri tíma litið. Í fjárhagsáætluninni sem lögð er fyrir árið 2011 er hins vegar ekki gert ráð fyrir tekjum bæjarsjóðs af neinum slíkum atvinnutækifærum þótt fjölmörg rök standi til þess. Reykjanesbær mun því eiga það allt inni sem gerist í auknum störfum vegna nýrra atvinnutækifæra á árinu 2011.
Beinar skuldir við lánastofnanir lægri en árstekjur bæjarins
Skuldir bæjarsjóðs við lánastofnanir nema nú 8,1 milljarði kr. sem er lægra en árstekjur sveitarfélagsins.
Sé tekið tillit til leiguskuldbindinga, lífeyrisskuldbindinga og annarra skulda eru heildarskuldir bæjarsjóðs áætlaðar 28,5 milljarðar kr. Eignir bæjarsjóðs nema 34,9 milljörðum kr.
Miðað við títtnefnt skuldahlutfall, þar sem frá skuldum og skuldbindingum er rétt að draga peningalegar eignir, svo sem skuldabréfaeign og innistæður á bankabók, er umrætt skuldahlutfall bæjarsjóðs nú áætlað 214% af tekjum en skuldir samstæðu 252% af tekjum.
Forsendur þess að bæjarfélaginu takist að lækka skuldir hratt byggja á auknum atvinnutækifærum með vel launuðum störfum.

Áætlunin í hnotskurn: