Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2010 samþykkt í bæjarstjórn
Miðvikudagur 6. janúar 2010 kl. 10:11

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2010 samþykkt í bæjarstjórn

Gert er ráð fyrir auknum skatttekjum vegna nýrra atvinnuverkefna – skatttekjur þó undir landsmeðaltali


Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs verði jákvæð um 47 milljónir kr. en samstæðan sem inniheldur framkvæmdir Reykjaneshafnar og félagslegar íbúðir verði neikvæð um 653 milljónir kr.


Heildartekjur bæjarsjóðs eru áætlaðar 7.924 milljónir kr. en útgjöld 7.877 milljónir kr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Gert er ráð fyrir að eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs á árinu 2010 verði 39,9% en samstæðu 23,3%. Eignir bæjarsjóðs á hvern íbúa nema 1639 þúsund kr. en skuldir 985 þúsund kr.


Áætlað er að skatttekjur án jöfnunarsjóðs aukist á árinu um 700 milljónir kr. vegna nýrra atvinnuverkefna sem hefjast á árinu, s.s. álvers í Helguvík , rafræns Gagnavers og heilsutengdrar ferðaþjónustu að Ásbrú. Þó er ekki gert ráð fyrir að skatttekjur á íbúa árið 2010 nái meðaltali sveitarfélaga á Íslandi, þar sem áhrif nýrra atvinnuverkefna verða ekki að fullu komin fram á árinu.


Lágar skatttekjur– hagkvæm þjónusta
Vandi Reykjanesbæjar undanfarin ár hefur verið fólginn í lágum skatttekjum en bilið sem var á milli landsmeðaltals og Reykjanesbæjar jókst við brotthvarf Varnarliðsins árið 2006 og hefur fremur aukist síðan. Árið 2008 munaði um 900 milljónum kr. á að skatttekjur Reykjanesbæjar, með jöfnunarsjóðsframlaginu, næðu landsmeðaltali. Þessu hefur verið mætt með hagræðingu í rekstri. Síðustu samanburðartölur frá 2008 sýna að launaútgjöld á íbúa vegna þjónustu Reykjanesbæjar eru þau lægstu á meðal tíu stærstu sveitarfélaganna, en engu að síður var ánægja með þjónustu á því ári metin einna hæst hjá Reykjanesbæ.
Álagningarhlutfall útsvars verður óbreytt frá árinu 2009, 13,28%, fasteignaskattur verður óbreyttur frá árinu 2009 eða 0,268%, umönnunargreiðslur til foreldra haldast óbreyttar kr. 25 þúsund sem og hvatagreiðslur k. 7.000 til niðurgreiðslu á menningar-, íþrótta- og tómstundastarfi ungmenna.


Hagræðingarþættir
Helstu hagræðingarþættir ársins 2010 eru 28 millj. kr. á menningarsviði, 115 milljón kr. á umhverfis- og skipulagssviði, 63 millj. kr. á Íþrótta- og tómstundasviði , 92 milljónir kr. á fjölskyldu- og félagssviði, 170 milljónir kr. á fjármála- og rekstrarsviði og 356 millj. kr. á fræðslusviði. Alls er 54% fjármagns Reykjanesbæjar lagt til fræðslusviðs en sviðið tekur á sig töluverð lægra hlutfall í hagræðingunni en önnur svið.


Meðal helstu hagræðingarverkefna er allt að 10% tímabundin starfsskerðing starfsmanna Reykjanesbæjar með yfir 400 þúsund kr. mánaðarlaun, líkt og gert var á síðasta ári. Þar sem því verður við komið verður ekki ráðið í stöður sem losna á árinu. Á fræðslusviði er aðallega gert ráð fyrir samdrætti í sérkennsluliðum, svigrúm til deildarstjóraráðninga er minnkað og lækkun verður á forfallakostnaði. Í leikskólum er gert ráð fyrir lækkun á forfallakostnaði og að matargjald verði samræmt nær grunnskólagjaldi sem er eitt hið lægsta á landinu. Máltíð í grunnskóla mun áfram kosta foreldra kr. 215. Máltíð til eldri borgara mun kosta kr. 750 en þar er innifalinn heimsendingarkostnaður eða matarþjónusta í þjónustumiðstöð aldraðra.


Breytingar á gjaldskrá
Gjaldskrá Reykjanesbæjar hækkaði ekki árið 2009 en nú verður að meðaltali 10% hækkun á ýmsum þjónustuliðum frá árinu 2008, s.s. á vistgjöldum leikskóla þar sem tímagjald verður kr. 2400, ýmsum bókasafnsgjöldum og aðgangi að íþrótta- og sundmiðstöðvum. Gjald í tónlistarskóla hækkar um 5% frá hausti 2010. Áfram verður frítt í sund fyrir börn á grunnskólaaldri og eldri borgara, frítt í strætó og á söfn bæjarins.



Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ.