Fjárhagsáætlun með kosningalykt?
Tekjugrunnur Reykjanesbæjar er að styrkjast og áætlanir um uppbyggingu í sveitarfélaginu gefa til kynna hærri skatttekjur en þær sem koma fram í 3ja ára fjárhagsáætlun, að mati sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
A-listinn segir hins vegar fjárhagsáætlunina bera það með sér að kosningar séu framundan og því sé nauðsynlegt fyrir meirihlutann að skila af sér áætlunum sem sýni viðsnúning í rekstri.
Þetta kemur fram í bókunum sem lagðar voru fram á bæjarstjórnarfundi í gær þar sem þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2011-2013 var til seinni umræðu.
Í bókun meirihlutans segir að forsvarsmenn fyrirtækja, sem hyggja á mikla uppbyggingu í Reykjanesbæ, hafi kynnt áætlanir sínar um þróun fyrirtækjanna og starfsmannafjölda á næstu árum. Þar eru nefnd álver, kísilver, gagnaver, heilsuþorp og fræðastöð Keilis. Áætlanir forsvarsmanna þessarar verkefna gefi til kynna mun hærri skatttekjur til Reykjanesbæjar en fjárhagsáætlunin gefi til kynna. Sjálfstæðismenn fullyrða í bókuninni að varfærnissjónarmið hafi ráðið för við gerð átælunarinnar.
„Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar vegna næstu þriggja ára ber það með sér að kosningar eru framundan og því er nauðsynlegt fyrir sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ að skila af sér áætlunum sem sýna viðsnúning í rekstri þar sem raunveruleiki stjórnarhátta þeirra hingað til hefur eingöngu leitt til hallareksturs… Það er hins vegar ljóst að fremur sé verið að horfa til niðurstöðutalna í þessari 3ja ára áætlun og forsendur hannaðar í samræmi við það,“ segir m.a. í bókun A-listans.
A-listinn bendir m.a. á að reiknað sé með 1% útgjaldaaukningu í áætluninni sem hljóti að teljast merkileg tíðindi í ljósi þess að vænta megi verulegs útgjaldaauka t.d. vegna verðlagsbreytinga og launabreytinga.
Sjá umræðu og bókanir nánar hér.