Fjárhagsáætlun í Garði: Tæpar 200 milljónir í plús
Snarpar umræður urðu á bæjarstjórnarfundi í Garði á miðvikudag þar sem fjárhagsáætlun ársins var afgreidd. Í fjárhagsáætluninni eru tekjur sveitarsjóðs áætlaðar 682.190.000 kr. en samstæðunnar 704.398.000 kr. Fjármagnstekjur eru áætlaðar hjá sveitarsjóði 155.028.000 kr. en 127.660.000 kr. hjá samstæðunni. Gert er ráð fyrir að gjöld sveitarsjóðs verði 642.438.000 kr. en samstæðunnar 657.495.000 kr. Rekstrarniðurstaðan verði því 194.780.000 kr. á sveitarsjóði en 174.563.000 kr. á samstæðunni. Veltufé frá rekstri verði 221.402.000 kr. og handbært fé í árslok verði 9.172.000 kr.
Ávöxtun af fjármunum þeim sem komu til eftir söluna á hlut bæjarins í HS gerir það að verkum að ekki þarf að taka lán á árinu og auk þess verða 288 milljónir lagðar í framkvæmdir í sveitarfélaginu á árinu. Þar má nefna viðbyggingu við Gerðaskóla, rennibraut, vaðlaug og nýjan gufuklefa við Íþróttamiðstöðina í bænum. Einnig er gert ráð fyrir hönnun og stækkun á leikvelli leikskólans og að fjórða deild leikskólans verði fullgerð, samtals 90.500.000 kr.
Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í gatnagerð þar sem ráðgert er að malbika afleggjara í útgarði og afleggjara sem enn hafa ekki bundið slitlag í inngarði og einnig verður farið út í gatnagerð í nýju hverfi ofan Garðvangs.
Áætlaðar eru 70 milljónir í fráveitukerfi og í gangstíga og 21.600.000 kr í frágang á opnum svæðum.
Í greinargerð með áætluninni segir að gert sé ráð fyrir „að aðhalds verði gætt í rekstri en jafnframt að þjónusta verði aukin, einkum við börn og eldri borgara. Um 60% af kostnaði við málaflokka fara í fræðslu, íþrótta- og æskulýðsmál. Gjaldskráin fyrir árið 2008 endurspeglar einnig stefnu N-listans sem leggur áherslu á fjölskylduvænt samfélag og þroskandi umhverfi til uppvaxtar.“
F-listinn, sem situr í minnihluta hafði eitt og annað að athuga við áætlunina og lagði fram breytingartillögur í fjórum liðum. Þar var lagt til að matarkostnaður grunnskólanema yrði felldur niður í áföngum, íþróttahúsið stækkað til að bæta aðstöðu starfsfólks og íþróttaiðkenda, hafist verði handa við skrifstofu forstöðumanns byggðasafnsins og samkomuhúsið verði lagað og húsbúnaður endurnýjaður.
Meirihlutinn svaraði þeim tillögum með því að nú þegar væru skólamáltíðir niðurgreiddar um rúmlegan helming og það væri hæfilegt. Áætlanir gerðu þegar ráð fyrir að aðstaða í íþróttahúsinu yrði betrumbætt og aðstaðan í byggðasafninu væri á þriggja ára áætlun sveitarfélagins.
Þá sagði N-listinn að taka þyrfti aðstöðu til framtíðar samkomuhússins og hlutverk þess fyrr en síðar, en áætlunin gerði ráð fyrir 1 milljón króna til viðhalds og búnaðar hússins í ár.
Voru breytingartillögurnar með því felldar með atkvæðum meirihluta.
Þá lagði minnihlutinn fram svohljóðandi bókun:
F-listinn harmar að ekki eigi að lækka álögur á skattgreiðendur í Garði sérstaklega þar sem staða bæjarins er mjög góð eftir sölu hlutabréfa í Hitaveitu Suðurnesja. Nú hefði einmitt verið lag að ganga til baka með útsvarsprósentuna úr 13,03% í 12,7 eins og nágrannasveitafélögin Sandgerði og Reykjanesbær eru með og bæta þannig ímynd Garðsins út á við og útsvarsgreiðendur í Garði fengju þannig notið þeirra ánægjulegu þróunar í fjárhagstöðu bæjarins með lægri álögum.
F-listinn hefði einnig kosið að fasteignaskattur á íbúðahúsnæði yrði lækkað úr 0,30% í 0,28% vegna hækkunar á fasteignamatinu um 12%.
Með því væri komið á móts við fasteignaeigendur til lækkunar vegna hækkunar á matinu umfram launavísitölu.
Einnig lagði F-listinn til að fasteignaskattur af fyrirtækjum yrði lækkaður úr 1,5% í 1,2% eins og hún var áður en N-listinn tók við. Þannig væri komið á móts við fyrirtækin vegna hækkunar á matinu og síðan en ekki síst vegna kvótaskerðingar sjávarútvegsins. Ekki er við hæfi að gagnrýna ríkið fyrir slælega framkomu í garð sjávarsútvegsfyrirtækjanna vegna skerðingarinnar og gera ekkert sjálf í málinu. Við sem sveitarstjórnarmenn getum sýnt okkar stuðning með áður greindri lækkun fasteignaskattsins.
F-listinn hefur ávallt haft þá stefnu að stilla ætti álögunum á íbúana og fyrirtæki í hóf . Það að geta sýnt í verki að sveitarfélagið vill hafa álögur eins lágar og mögulegt er stuðlar að því að íbúarnir hafa sjálfir meiri ráðstöfunartekjur og F-listinn trúir að undir slíkri stefnu kjósi fleiri að búa og eiga heima í Garðinum en því miður hefur íbúum farið fækkandi á síðasta ári svo eitthvað verður til bragðs að taka.
N-listi svaraði um hæl með annari bókun:
N-listinn ítrekar að í langflestum sveitarfélögum landsins er útsvarsprósentan 13,03% enda er gert ráð fyrir þeirri útsvarsprósentu við alla útreikninga við framlög jöfnunarsjóðs sem eru einn af þremur tekjustofnum sveitarfélaga. Fasteignaskattar í Garðinum, hvort sem eru af íbúðarhúsnæði eða fyrir aðrar fasteignir, eru með þeim lægstu á Suðurnesjum. Með stefnu N-listans og framtíðarsýn er þjónusta við bæjarbúa aukin til muna og njóta bæjarbúar á öllum aldri þjónustunar, hvort sem er í auknu framboði eða lægri þjónustugjöldum.
Með því var áætlunin samþykkt með atkvæðum meirihluta en fulltrúar minnihluta sátu hjá.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson