Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 27. desember 2000 kl. 01:43

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2001: Miklar framkvæmdir fyrirhugaðar á næsta ári

Síðari umræða um fjárhagsáætlun 2001 fór fram á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í síðustu viku. Langstærsta verkefni ársins er bygging 25 leiguíbúða fyrir aldraða við Kirkjuveg 5 en í áætluninni kemur einnig fram að stærsti hluti rekstrargjalda fer til skóla-, félags-, íþrótta- og tómstundamála. Áætlunin var samþykkt með sjö atkvæðum meirihlutans, minnihlutinn greiddi ekki atkvæði.

Fasteignaskattur lækkar
Stærsti einstaki útgjaldaliður er sem fyrr laun og launatengd gjöld, eða 1,2 milljarðar kr. en gert er ráð fyrir 4% launahækkun í rekstraráætlun. Starfsmenn verða í árslok tæplega 600 í 473 stöðugildum.
Álagningarprósenta útsvars hækkar úr 12,04% Í 12,70% og mun helmingurinn af þeirri hækkun koma í hlut skattgreiðenda. Fasteignaskattar lækka og sorphirðugjald og fráveitugjald verður óbreytt.

Skuldalækkun 155 millj. kr.
Skatttekjur eru áætlaðar tæplega 2,3 milljarðar en nettó rekstrargjöld málaflokka eru 1,7 milljarður eða 74,99%. Sem fyrr fer stærsti hluti rekstrargjaldatil skóla-, félags-, íþrótta- og tómstundamála eða tæplega 1,2 milljarðar. Til sameiginlega rekinna stofnana sveitarfélaga á Suðurnesjum leggur Reykjanesbær 167 millj. kr. sem er 71,3% af framlögum sveitarfélaganna.
Til fjárfestinga á að verja 224 millj. kr. og afborganir langtímalána eru áætlaðar 320 millj. kr., tekin skuldbreytingarlán 165 millj. kr. og skuldalækkun er áætluð 155 millj. kr.

Miklar framkvæmdir á árinu
Gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum á vegum bæjarfélagsins á næsta ári. Langstærsta verkefnið er bygging 25 leiguíbúða fyrir aldraða við Kirkjuveg 5 en þær á að taka í notkun í apríl 2002. Önnur verkefni eru fráveitumál, gatna- og gangstéttagerð, gerð B-salar í íþróttahúsinu við Sunnubraut, endurnýjun á tækjakosti Brunavarna Suðurnesja fyrir tæpar 9 millj. kr. og rúmar 7 millj. kr. sem eiga að fara til framkvæmda við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, D-álmu og fleira.

Íbúðabyggð í Innri-Njarðvík
Gert er ráð fyrir að verja 13 millj. kr. í skipulagsmál við Samkaup, Hafnargötu og ofan Eyjabyggðar en endurbygging Hafnargötu á að hefjast 2003. Í áætluninni kemur fram að endurskipulagning aðalskipulags eigi að hefjast á árinu, skipulag útivistarsvæðis á Fitjum og undirbúningur að skipulagi nýrrar íbúðabyggðar í Innri-Njarðvík. Húsnæðisnefnd fær 9,5 millj. kr. til innlausnar kaupskylduíbúða og sem framlag í ábyrgðasjóð fyrir 75 viðbótarlánum til íbúðarkaupa.

Léleg fjármálastjórnun
Fulltrúar minnihlutans voru ekki sáttir við framlagða fjárhagsáætlun og gagnrýndu meirihlutann fyrir lélega fjármálastjórnun. „Því miður virðist það borin von að meirihlutinn nái tökum á fjármálum bæjarins, að hann geri eitthvað sem geti orðið til þess að fjárhagsstaða bæjarins batni. Þetta er þó á meðan atvinnuástand er gott og ætla má að tekjur bæjarins séu í hámarki. Það er sorglegt til þess að vita að þessi tími sé ekki notaður til að rétta fjárhag bæjarins af, því verður það stóra verkefni að bíða næsta meirihluta.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024