Fjárhagsáætlun ekki í takti við komandi bata
- segja sjálfstæðismenn í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar
„Áætlun meirihluta bæjarstjórnar sem er lögð fram á að gilda til ársins 2019. Hún gerir ekki ráð fyrir að tekist hafi að færa rekstur bæjarins í viðunandi horf á þeim tíma. Það gefur því auga leið að þetta getur ekki verið sú áætlun sem samþykkt verður eftir síðari umræðu,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna við fyrri umræðu Fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar árin 2016-2019 á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag.
„Áætlunin horfir framhjá þeim staðreyndum að hér er eitt öflugasta uppbyggingarsvæði landsins þar sem um 700 milljón kr. tekjur munu koma til bæjarsjóðs á ári, frá árinu 2017, aðeins vegna verkefnanna í Helguvík. Alþjóðaflugvöllurinn er einnig í mikilli uppbyggingu sem kallar á hundruð starfa á hverju ári og því verulega skatttekjuaukningu fyrir Reykjanesbæ. Áætlun um íbúafjölgun tekur ekki mið af þessu.
Þá er hvergi gert ráð fyrir að takist að semja við lánadrottna, sem eru að stórum hluta útlendir vogunarsjóðir hinna föllnu banka, þegar ríkið semur á sama tíma við þá um verulega eftirgjöf skulda.
Áætlunin er því eingöngu stöðutaka sem sýnir stöðu ef hvorki verður áfram unnið í tekjuöflun eða samningum um skuldir bæjarins. Vonandi er ætlun meirihlutans önnur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn eru sannarlega áfram reiðubúnir að aðstoða við þá vinnu.