Fjárfestingar í nýjum innviðum fyrir 50 til 60 milljarða króna
Drögum að samþykkt um gjaldtöku innviða- og byggingarréttargjalds í Reykjanesbæ vísað til seinni umræðu bæjarstórnar
Bæjarráð Reykjanesbæjar telur að ef fram heldur sem horfir, og íbúafjölgun í Reykjanesbæ verður jafn ör næsta áratuginn og þann síðasta, megi gera ráð fyrir að fjárfestingar í nýjum innviðum s.s. leik- og grunnskólum, íþróttamannvirkjum, menningarhúsum, margvíslegum úrræðum á vegum félagsþjónustunnar o.fl. muni nema 50-60 milljörðum til ársins 2035.
„Það er alveg ljóst að þrátt fyrir að rekstur sveitarfélagsins gangi smám saman betur mun veltufé frá rekstri úr grunnstarfsemi A-hluta bæjarsjóðs ekki duga til að standa straum af slíkum fjárfestingum. Þá mun frekari lántaka og skuldsetning heldur ekki vera æskileg,“ segir í afgreiðslu bæjarráðs.
Bæjarráð hefur samþykkt drög að samþykkt um gjaldtöku innviða- og byggingarréttargjalds í Reykjanesbæ og vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Fyrri umræðan fór fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í þessari viku. Þar var málinu fylgt úr hlaði og vísað til seinni umræðu bæjarstjórnar 4. júní nk.