Fjárfestar skoða að kaupa sér tryggingar fyrir pólitískum upphlaupum á Íslandi
HS Orka er með tvær framkvæmdaáætlanir fyrir árið 2011. Þetta kom fram í máli Ásgeirs Margeirssonar, stjórnarformanns HS Orku, á atvinnumálafundi Samtaka atvinnulífsins í Stapa í gær. Framkvæmdaáætlunin sem gildir þar til annað er ákveðið gerir í raun ráð fyrir lágmarks framkvæmdum sem nauðsynlegar eru til að viðhalda núverandi rekstri. Áætlunin gerir ráð fyrir fjárfestingum upp á 353 milljónir króna.
Stærsta einstaka fjárfesting HS Orku á þessu ári er vegna niðurdælingar og fleiri þátta í Svartsengi en áætlaðar eru 194 milljónir króna í það verk. Vegna verkefna á Reykjanesi verður varið 34 milljónum og 60 milljónir króna fara í undirbúning nýrra virkjana. Vegna rannsókna við Búlandsvirkjun fara 30 milljónir og 37 milljónir vegna annarra verka.
Hin framkvæmdaáætlun HS Orku byggir á þeirri forsendu að framkvæmdir við nýjar virkjanir geti hafist. Ásgeir sagði að vegna óvissu væri erfitt að tímasetja þessar framkvæmdir eða áætla hvernig kostnaður skiptist á milli tímabila eða ára. Hann sagði að til að verkefni gætu hafist þurfi ýmis atriði að vera í lagi.
Virkjunarleyfi þarf að fást
Þar nefnir hann að virkjunarleyfi þurfi að fást á Reykjanesi. Miðað við drög sem nú liggja fyrir verði verkefnið bæði mun kostnaðarsamara og tímafrekara en gert var ráð fyrir. Þá þurfi að ganga frá sölusamningum fyrir orkuna frá virkjuninni með þeim hætti að mögulegt sé að fjármagna verkefnið.
Ásgeir sagði að ganga þurfi frá breytingum á aðal- og deiliskipulagi í Eldvörpum svo unnt sé að hefja rannsóknarboranir þar. Þar þurfi einnig að tryggja samstarf sveitarfélagsins. Hann sagði að í Krýsuvík sé leyfi til borunar á fyrstu þremur holunum frá einum borteig en heildarmynd vanti á skipulag og sömuleiðis staðfestingu á vilja sveitarfélagsins sem er eigandi lands og auðlindar í Seltúni og Hveradölum um nýtingu auðlindarinnar.
Versnandi orðspor Íslands
Í máli Ásgeirs Margeirssonar kom fram að orðspor Íslands meðal erlendra fjárfesta færi versnandi vegna pólitískra óvissu og umræðu um þjóðnýtingu fyrirtækja. Nú væri svo komið að menn væru farnir að hugsa um að kaupa sér tryggingar fyrir pólitískum upphlaupum líkt og tíðkast í ríkjum þar sem stjórnarfar er óstöðugt og leikreglur í viðskiptum óskýrar.
Hvað kostar að stækka virkjanir?
Í kynningu Ásgeirs stórnarformanns HS Orku kom fram að stækkun Reykjanesvirkjunar um 50 MW hefur verið áætluð kosta um 14,6 milljarða króna og af því hafa 4,6 milljarðar verið greiddir. HS Orka áætlar að þessi kostnaðaráætlun geti hækkað um 15-20 prósent miðað við fyrirliggjandi drög að virkjunarleyfi.
HS Orka fyrirhugar einnig aðra 30 MW stækkun á Reykjanesvirkjun sem er áætluð kosta um 8 milljarða króna. Þar á að vinna raforkuna úr jarðsjónum sem nú fellur til sjávar um stokk frá Reykjanesvirkjun.
Fyrri stækkun Reykjanesvirkjunar er tilbúin til útboðs og gæti því að uppfylltum skilyrðum um virkjunarleyfi, orkusölusamninga og fjármögnun hafist fljótlega.
Framkvæmdin er áætluð taka um tvö ár. Kostnaður yrði ekki mjög mikill fyrstu 6 mánuðina eftir að byrjað væri en myndi dreifast nokkuð jafnt eftir það. Innlendur kostnaður er almennt talinn um 60 prósent heildarkostnaðar en er hærri við að ljúka þessari framkvæmd þar sem túrbína og gufuþéttir eru þegar komin og nánast að fullu greidd.
Á fundinum ítrekaði Ásgeri jafnframt að orkulindirnar sem HS orka nýtir eru ekki í eigu einkaaðila heldur sveitarfélaga á Suðurnesjum sem hafi tryggt sér góðar tekjur af þeim næstu 65 árin. Ef ríkið ætli sér að þjóðnýta þær verði það að ræða við sveitarfélögin um hvort þau séu til í að stytta nýtingartímann.
Myndir frá fundi Samtaka atvinnulífsins í Reykjanesbæ í gær. VF-myndir: Hilmar Bragi