Fisktækniskólinn kominn til að vera
-skrifað undir samning um rekstur skólans til ársins 2020
Í dag var skrifað undir samning um starfsemi Fisktækniskóla Íslands til fimm ára eða fram til ársins 2020.
Undir samninginn rituðu fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson og ráðherra mennta- og menningarmála Illugi Gunnarsson ásamt Ólafi Þór Jóhannssyni formanni stjórnar fisktækniskólans og Ólafi Jóni Arnbjörnssyni skólastjóra.
Að sögn Ólafs Jóns er með samninginum óhætt að fullyrða að skólinn hafi endanlega fengið þann sess í skólakerfinu sem unnið hafi verið að.
„Skólinn hefur verið samningslaus frá síðustu áramótum og þó svo þetta hafi legið í loftinu þá hefur endanlegur samningur til undirritunar ekki verið á borðinu fyrr en núna - þegar rúmir tveir mánuðir eru eftir af starfsárinu. Það þarf vart að taka það fram hvaða áhrif það hefur fyrir starfsemi skólans að þessi samningur til fimm ára sé undirritaður, eftir 10 ára vinnu. Við erum endanlega komin til að vera.“
Fisktækniskóli Íslands var stofnaður árið 2010 og býður upp á fjölbreytt nám í sjávarútvegi á framhaldsskólastigi. Aðsetur skólans er í Grindavík.
Að sögn Ólafs Jóns markar samningurinn nýja tíma fyrir skólann.
„Hann gjörbreytir öllum starfsskilyrðum og staðfestir að námsframboð skólans og það sem við lögðum upp með á erindi í íslensku samfélagi. Þá mun samningurinn skapa góð skilyrði til frekari sóknar.“