Fisktækniskólinn í Grindavík opnaður á morgun
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, mun á morgun opna formlega aðstöðu Fisktækniskóla Suðurnesja í Grindavík.
Fisktækniskólinn er samstarfsverkefni Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, Sambands Sveitarfélaga á Suðurnejsum, Grindavíkurbæjar, einstaklinga auk fyrirtækja og stéttarfélaga á sviði veiða og vinnslu á Suðurnejsum.
Undir merki Fisktækniskólans hafa samstarfsaðilarnir sett sér að markmiði að vinna að eflingu náms og kennslu á sviði veiða, vinnslu og fiskeldi á Suðurnesjum. Vilja þeir jafnframt vinna að og hvetja til samstarfs á landsvísu um samræmt grunnnám á framhaldsskólastigi í samstarfi fræðslu- og hagsmunaaðila sem víðast á landinu. Þá vill félagið vinna að almennri kynningu á námi á sviði sjávarútvegs og fiskeldi og efla námsefnisgerð.
Fisktækniskóli Suðurnejsa í Grindavík sér nú um kennslu á sviði veiðitækni (netagerðar) á grundvelli samstarfssamnings við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Skólinn áformar að hefja kennslu á sviði veiða (hásetanám), vinnslu og fiskeldi á framhaldsskólastigi á næsta ári.
30 nemendur (átján hásetar, tveir í netagerð og tíu í fiskvinnslu) hófu nám hjá Fisktækniskólanum í marsmánuði á grundvelli sérstaks átaks vinnumálstonfunar á Suðurnesjum og verður námið metið til eininga á framhaldsskólastigi. Nemendur Fisktæniskólans verða til staðar og kynna vinnu sína í verknámi í tilefni opnunarinnar á þriðjudaginn.
Athöfnin hefst í Saltfisksetrinu í Grindavík kl. 16.00 og í framhaldi verður til sýnis verknámsaðstaðan að Ægisgötu 3 og bóknámsaðstaðan að Víkurbraut 56, en þar verða jafnframt aðstaða Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum í Grindavík.
----
Mynd/Þorsteinn Gunnarsson - Þrátíu nemendur hófu nám í Fisktækniskólanum í síðasta mánuði.