Fisktækniskólinn formlega opnaður
Fisktækniskóli Suðurnesja í Grindavík var formlega opnaður á þriðjudaginn við hátíðlega athöfn í Saltfisksetrinu. Skólahald hófst reyndar í mars þegar 30 nemendur hófu nám á grundvelli sérstaks átaks Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum. Á máli þeirra sem tóku til máls við opnun skólans mátti heyra að löngu tímabært væri að hlúa að menntun við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Fisktækniskólinn hefur vakið athygli og undirbúningur að stofnun svipaðrar stofnunar þegar hafinn á amk. tveimur öðrum stöðum á landinu.
Ólafur Jón Arnbjörnsson hefur átt veg og vanda að undirbúningi Fisktækniskóla Suðurnesja í Grindavík. Í máli hans kom fram að skólinn annaðist kennslu á sviði veiðitækni (netagerðar) á grundvelli samstarfssamnings við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og áformaði að hefja kennslu á sviði veiða (hásetanám), vinnslu og fiskeldi á framhaldsskólastigi á næsta ári, á grundvelli nýrrar námskrá sem verið er að vinna að og að fengnu samþykki menntamálayfirvalda.
Fisktækniskólinn er samstarfsverkefni Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, Sambands Sveitarfélaga á Suðurnejsum, Grindavíkurbæjar, einstaklinga auk fyrirtækja og stéttarfélaga á sviði veiða og vinnslu á Suðurnejsum.
Myndir/Þorsteinn Gunnarsson.