Fisktækniskóli í Grindavík: Mikill áhugi erlendis
Unnið er að fjármögnun Fisktækniskólans sem fyrirhugað er að koma á stofn í Grindavík. Verið er að vinna að fjármögnun raungreinabúðanna en mikill áhugi er á verkefninu erlendis skv. því sem upplýst var á síðasta fundi Skólanefndar FS. Nefndin hefur ákveðið að færa veiðafæradeild skólans til Fisktækniskólans og mun leggja til hálf laun kennara við deildina til 1. ágúst 2010. Ýmis hagsmunaaðilar hafa sýnt áhuga á að leggja fjármagn til verkefnisins en viðræður við ríkisvaldið hafa frestast vegna óvissu í ríkisfjármálum.
Undirbúningsfélag að stofnun Fisktækniskóla Íslands ehf var formlega stofnað um miðan mars á þessu ári. Markmið félagsins er að stofna fisktækniskóla í Grindavík á grundvelli laga um framhladsskóla og framhaldssfræðslu.
Fisktækniskóli Íslands verður sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi en sækir fyrirmynd sína til annarra slíkra skóla erlendis, t.d. á norðurlöndunum. Hlutverk skólans verður meðal annars að efla fagþekkingu, auka nýliðun í greininni og stuðla að öflugu kynningar og þróunarstarfi. Þá er skólanum ætlað að vera ráðuneytum til aðstoðar við uppbyggingu og skipulag náms og fræðslu, stuðla að samstöðu fagaðila, hvetja fyrirtæki í greininni til að taka nema og styðja fyrirtæki í fiskeldi, veiðum og vinnslu sjávarafla til að taka á móti nemum.
FTÍ er í eigu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Grindavíkurbæjar, mennta- og fræðsluaðila á Suðurnesjum, einstaklinga, fyrirtækja og stéttarfélaga á Suðurnesjum á sviði fiskeldis, veiða og vinnslu sjávarafla.
---
VFmynd/elg: Undirbúningsfélag að stofnun Fisktækniskólans var formlega stofnað í Grindavík í mars síðastliðnum.