Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fiskimjölsverksmiðjan í Sandgerði rifin: starfsemi á svæðinu fyrirhuguð
Fimmtudagur 10. júní 2004 kl. 12:01

Fiskimjölsverksmiðjan í Sandgerði rifin: starfsemi á svæðinu fyrirhuguð

Verið er að rífa verksmiðjuhúsnæði fiskimjölsverksmiðjunnar í Sandgerði sem hýsti tæki verksmiðjunnar. Vélsmiðjan Hamar ehf. í Kópavogi hefur keypt allar byggingar fiskimjölsverksmiðjunnar af Síldarvinnslunni í Neskaupsstað. Grind hússins verður flutt til Eskifjarðar þar sem Hamar ehf. mun reisa vélaverkstæði.

Að sögn Davíðs Þórs Sigurbjartarsonar annars eigenda Hamars ehf. hyggst fyrirtækið hefja rekstur í Sandgerði, en hann er ekki tilbúinn til að gefa upp um hverskonar rekstur verður að ræða. „Það er ljóst að Hamar ehf. verður með starfsemi hér í Sandgerði. Viðskiptahugmyndin er klár og rekstrarútreikningar einnig. Við erum bara ekki tilbúnir til að gefa það upp strax um hvernig rekstur verður að ræða,“ sagði Davíð í samtali við Víkurfréttir.

Davíð segir að þrær fiskimjölsverksmiðjunnar verði ekki rifnar en millihús verði rifið, auk allra tanka í kringum verksmiðjuna. „Við ætlum okkur að snyrta umhverfið hér í kring því það skiptir okkur verulegu máli. Við eftirlétum Sandgerðisbæ tjarnirnar í nágrenninu en Síldarvinnslan átti þær.“

Hamar ehf. var stofnað árið 1998 og eru höfuðstöðvar fyrirtækisins í Kópavogi, en fyrirtækið rekur einnig vélaverkstæði á Eskifirði.

Verksmiðjuhús fiskimjölsverksmiðjunnar var reist árið 1997 og er því einungis sjö ára gamalt.

 

Myndirnar: Húsnæði fiskimjölsverksmiðjunnar í Sandgerði rifið. Grind hússins verður flutt á Eskifjörð, en Hamar ehf. hefur keypt allar byggingar á svæðinu. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024