Fisflugmenn á skólabekk í Keili
Fjölmargir fisflugmenn settust á skólabekk hjá flugakademíu Keilis í gærkvöldi. Þar fengu þeir upprifjun á ýmsum öryggisatriðum í flugi.
Flugakademía Keilis setti sig í samband við fisflugáhugafólk sem stundar sitt sport á Sléttunni á Njarðvíkurheiði í kjölfar alvarlegs slyss sem varð á Njarðvíkurheiði nýverið. Þar fórust tveir menn í slysi þegar fisflugvél féll til jarðar.
Keilir vildi sýna fisfluginu virðingu sína og bauð þeim sem stunda fisflugið að koma í gærkvöldi á fræðslukvöld án endurgjalds. Eins og fyrr segir var það stór hópur fisflugmanna sem þáðu boðið og þáðu góða upprifjun á ýmsum öryggisatriðum í flugi.