Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Finnst að bærinn eigi að vera mjög upptekinn af þessu máli“
Ragnheiður í ræðustól og Sigurður dýralæknir til vinstri. Á milli þeirra er Dagný Steinsdóttir, en hún hafði frumkvæði að fundinum. VF-myndir/pket.
Þriðjudagur 21. apríl 2015 kl. 10:33

„Finnst að bærinn eigi að vera mjög upptekinn af þessu máli“

- fjölsóttur fundur hjá hestamönnum um mengun frá stóriðju í Helguvík

„Mér finnst að bærinn eigi að vera mjög upptekinn af þessu máli. Skynsamleg umræða er nauðsynleg,“ sagði Sigurður Sigurðarson dýralæknir á fundi í félagsheimili Hestamannafélagsins Mána á Mánagrund í gærkvöldi. Yfirskrift fundarins var „Getur uppbygging atvinnulífs í Helguvík skaðað hestana okkar á Mánagrund?“. Auk Sigurðar flutti Ragnheiður Þorgrímsdóttir stjórnsýslufræðingur og bóndi erindi en hún hefur háð áralanga baráttu til að fá Umhverfisstofnun til að gera ítarlega rannsókn á hrossum og unhverfi þeirra vegna meintrar mengunar frá stóriðju á Grundartanga. Það hefur gengið afar illa.

Yfir hundrað manns mættu á fundinn, flestir hestafólk en einnig fólk sem hefur látið til sín taka vegna hugsanlegrar mengunar af stóriðju í Helguvík. Umræða frummælenda fjallaði mikið um flúormengun frá álveri en einnig mengun frá kísilverum.

Heyra mátti á hestamönnum að þeim þótti þetta mál sem þau kynntu, ekki gott enda er hestasamfélagið við Mánagrund mjög stutt frá byggingarsvæði iðjuveranna í Helguvík.
Ragnheiður sem er bóndi á Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit fór yfir erfiða reynslu sína með hesta sína á bænum. Vart var við óvanaleg og óþekkt veikindi í hestunum árið 2007 en árið áður slapp mikið flúor út í umhverfið eftir óhapp í álverinu við Grundartanga í Hvalfirði en sveitabær hennar er um 4-5 km. frá því. Barátta hennar við þessi afbrigðilegu veikindi í skepnunum hefur gengið illa og hefur hún þurft að fella 12 hross á nokkrum árum. Þá hefur barátta hennar við kerfið einnig gengið mjög illa. Rannsóknir hafa verið af skornum skammti og samskipti við Umhverfisstofnun og Matvælastofnun erfið. Hún sagði að 70 manns störfuðu hjá Umhverfisstofnun en enginn dýralæknir. Til að komast lengra í málinu leitaði hún m.a. til Noregs þar sem fjögur hross voru krufin. Þar kom í ljós háar tölur flúors í hestunum.

Sigurður dýralæknir sagði alltof lítið vitað um langvinn áhrif flúrors á heilsufar hrossa. Rannsókn væri nauðsynleg. Framleiðslu á áli fylgdi mengun og flúor væri verst, það slyppi út í loftið, þrátt fyrir góðar síur. Þá sagði hann að þótt margt benti á eitrun væri sönnun erfið.

Sigurður sagði m.a. að flúor í beinum veiku hrossana á Kúludalsá hafi verið marktækt meira en í beinum hrossa af öðrum bæjum við Hvalfjörð, en þó hafi það hækkað. Það hafi verið um fimm sinnum meira en í hrossum frá svæðum fjarri álverinu.

„Mengunarvaldurinn bolast áfram, neitar meðan fært er. Það er gott að auka atvinnu og hagvöxt. Sá sem truflar eða tefur slíkar framkvæmdir, vegnar þess að hann óttast mengun eða spillingu á landi og lífsgæðummá stundum þola af veitungum sínm og samborgurum að vera talinn skrýtinn, vitlaus, jafnvel geðveikur. Það er reynt að þagga niður í þeim sem mótmæla í stað þess að fræða og ræða, hvað best má gera. Mengun frá kísilverum er öðruvísi en frá álverum. Loftmengun frá þeim er ekki heldur hættulaus fyrir fólk. Síritun þarf (fylgjast stöðugt með mengun) og fræðslu um mengunina og öll spil á borðið ef friður á að ríkja,“ sagði Sigurður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024