Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Finna þarf lausn á málefnum FS - segir Oddný Harðardóttir
Miðvikudagur 17. október 2012 kl. 15:28

Finna þarf lausn á málefnum FS - segir Oddný Harðardóttir

„Krefjast verður þess að menntamálaráðuneytið og stjórnendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja finni lausn á álitamálunum og að frá menntamálaráðuneytinu, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og ríkisstjórn komi skýr skilaboð um að ungmennum á Suðurnesjum verði ekki frekar en öðrum ungmennum á landinu meinuð skólavist á næsta skólaári. Enda væri það í hróplegu ósamræmi við stefnu stjórnvalda og kæmi aldrei til greina,“ segir Oddný Harðardóttir annar þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og formaður þingflokksins, aðspurð út í fréttir af stöðu Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

„Á ríkisstjórnarfundi í ágúst síðastliðnum ræddi menntamálaráðherra stöðu framhaldsskólanna og fyrirsjáanlegan rekstrarvanda nokkurra þeirra á yfirstandandi skólaári. Á þeim fundi var ítrekuð sú stefna stjórnvalda að öll þau ungmenni sem þess óska og  uppfylla skilyrði fái inngöngu í framhaldsskóla. Skólum verði ekki gert að fækka nemendum og segja upp starfsfólki vegna rekstrarvanda á árinu 2013. Í framhaldinu var lagt til við samningu fjáraukalagafrumvarps að veittar yrði 140 mkr til að mæta þeim skólum sem verst eru settir í ár og unnið er að breytingatillögum við fjárlagafrumvarp næsta árs sem fjallað verðum um á Alþingi í lok nóvember.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Opnun framhaldsskólana fyrir atvinnuleitendum hefur borið góðan árangur og stjórnendur og starfsfólk framhaldsskólanna hafa unnið afar vel úr erfiðri stöðu sem skólarnir voru settir í ásamt öllum öðrum ríkisstofnunum eftir efnahagsáfallið haustið 2008. Stofnanirnar allar og starfsmenn þeirra hafa haldið uppi góðri þjónustu ásamt því að glíma við afleiðingar hagstjórnarmistaka sem gerð voru á árunum fyrir hrun. Af fagmennsku hafa starfsmenn sinnt skjólstæðingum sínum afar vel við vægast sagt krefjandi aðstæður. Og fyrir það ber að þakka.

Það verður því að líta það alvarlegum augum ef álitamál á milli einstakra framhaldsskóla og ráðuneytis vegna tæknilegra atriða er varðar reiknilíkan verði til þess að því sé hótað, að um 200 nemendur á því svæði sem einna verst hefur orðið úti eftir efnahagshrunið fái ekki inngöngu í framhaldsskólann á svæðinu.  Slíkar upphrópanir hljóta að hafa slæm áhrif á nemendur, starfsmenn skólans og samfélagið í heild og verður að reka aftur til föðurhúsanna hið snarasta,“ sagði Oddný.


Úr kennslustund í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.