Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtíu og fjórar eignir komu til byrjunaruppboðs í morgun
Mánudagur 2. nóvember 2009 kl. 14:06

Fimmtíu og fjórar eignir komu til byrjunaruppboðs í morgun


Mikill fjöldi auglýstra nauðungaruppboða sem birtust í síðustu Víkurfréttum vakti athygli lesenda en hátt í 150 eignir voru þá auglýstar og fylltu heila opnu í blaðinu. Hefur annar eins fjöldi auglýstra nauðungaruppboða hjá Sýslumanninum í Keflavík ekki sést í langan tíma.

Uppboðum á öllum þessum fasteignum hafði verið frestað eftir lagasetningu í endaðan mars síðastliðnum en lögunum var ætlað að koma í veg fyrir að fólk missti heimili sín. Gátu gerðarþolar farið fram á frest til loka október eða á gildistíma laganna. Af  þeim sökum var þessi mikli fjöldi eigna auglýstur á nauðungaruppboð hjá Sýslumanninum í Keflavík  núna þar sem aðfararbeiðnir höfðu safnast upp á gildistíma laganna.
Fyrir þingi liggur lagafrumvarp sem heimilar frestun nauðungarsölu til til loka janúar á næsta ári uppfylli gerðarþoli skilyrði laganna.  Á meðan frumvarpið hefur ekki verið samþykkt geta nauðungarsölur farið fram. Reikna má með að það verði orðið að lögum á allra næstu dögum.

Alls voru 57 eignir auglýstar til fyrsta uppboðs hjá Sýslumannsembættinu í Keflavík,  sem fara áttu fram í dag. Sjö eignir voru auglýstar til framhaldsuppboðs og 76 eignir til fyrirtöku til ákvörðunar um byrjun uppboðs.

Engar lokasölur fór fram í dag. Fimmtíu og fjórar eignir komu til fyrsta uppboðs í morgun og 20% þeirra til framhaldsuppboðs sem fer fram innan fjögurra vikna. Öðrum var frestað lengur.

„Öll þessi mál voru í gangi mánuðina apríl til október og var frestað á grunvelli þessara laga frá því í vor og því varð ekki frekari framvinda á öllu þessu tímabili. Því má segja að þarna hafi safnast upp sjö mánaða frestunarbirgðir,“ sagði Þórólfur Halldórosson, sýslumaður í Keflavík í samtali við VF. 

Aðspurður hvort þetta sé ein birtingarmynd kreppunnar segist Þórólfur ekki endilega geta lagt út frá því.
„En það er samt ljóst að það er hærra hlutfall nauðungaruppboða hér á Suðurnesjum heldur en t.d. í Reykavík. En það þarf svo sem ekki að koma á óvart þegar hér er mesta atvinnuleysið á landinu. Þetta helst allt í hendur,“ sagði Þórólfur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024