Fimmtíu aldraðir bíða eftir hjúkrunarheimili
– Knýjandi þörf fyrir hjúkrunarrými þrátt fyrir nýtt hjúkrunarheimili
Alls eru fimmtíu einstaklingar á Suðurnesjum á biðlista eftir hjúkrunarrýmum samkvæmt upplýsingum frá Þjónustuhópi aldraðra á Suðurnesjum. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs tók málið upp á fundi sínum á dögunum og skorar á stjórn Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum [DS] að hefja nú þegar vinnu í að fylgja eftir samþykkt aðalfundar DS frá því í lok apríl í fyrra til lausnar á vandanum.
Í Garði stendur húsnæði Garðvangs autt. Þar voru áður um 40 hjúkrunarrými. Hluti hússins er barn síns tíma og mun ekki nýtast óbreytt, en í húsnæðinu mætti reka 15-20 rýma hjúkrunarheimili.
Í samþykkt aðalfundar DS sagði: „Aðalfundur DS samþykkir að stjórn DS vinni að því í samstarfi við aðildarsveitarfélög DS að heimildir fáist fyrir fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum. Jafnframt að leitað verði eftir því við heilbrigðisráðherra að fjármagn fáist sem allra fyrst til nauðsynlegra endurbóta á Garðvangi þannig að þar verði rekið 15-20 rúma hjúkrunarheimili.“
Bæjarstjórnin í Garði var samhljóða og skoraði á síðasta fundi sínum á stjórn Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum að hefja nú þegar vinnu við að fylgja eftir framangreindri samþykkt aðaldundarins, enda liggur fyrir að samkvæmt nýjustu fundargerð Þjónustuhóps aldraðra á Suðurnesjum er mikil og knýjandi þörf fyrir mun fleiri hjúkrunarrými en nú eru heimildir fyrir.