Fimmtán milljónir til körfuboltans vegna Covid-19
Deildir Keflavíkur og Njarðvíkur leituðu til bæjaryfirvalda . „Á hættustigi og við það að detta á neyðarstig“.
Erindi stjórna körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur var tekið fyrir í bæjarráði Reykjanesbæjar 27. janúar. Þar er beðið um aukið framlag til barna- og unglingaráða félaganna beggja, upp á þrjár milljónir króna á hvort lið, og aukið framlag til körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur, upp á átta milljónir króna á hvort lið.
Bæjarráð samþykkir að styrkja aðalstjórn Keflavíkur um sjö og hálfa milljón króna og aðalstjórn Njarðvíkur um sömu upphæð vegna Covid sem sérstaklega er ætlað körfuknattleiksdeildum félaganna.
Í bréfi sem Kristín Örlygsdóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, Kristján Helgi Jóhannsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, Ólafur Eyjólfsson, formaður aðalstjórnar Njarðvíkur, og Einar Haraldsson, formaður aðalstjórnar Keflavíkur, rita til bæjarstjórans í Reykjanesbæ segir:
„Á dögunum sátu aðilar úr stjórnum körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur fund saman. Ástæða fundarins var staðan á rekstri deildanna sem því miður orðin ansi slæm en ástæðuna má að langmestu leyti rekja til þess ástands sem hefur ríkt í okkar samfélagi með tilkomu Covid-19. Við viljum ekki fara í langar útskýringar hér á þessum vettvangi yfir það hversu gríðarlegu tekjutapi deildirnar hafa orðið fyrir en viljum gjarnan fá tækifæri til að sýna ykkur svart á hvítu hvernig málin standa.
Þess vegna leitum við til ykkar með þá von að þið séuð reiðubúin til að hitta okkur þar sem við förum ítarlega yfir stöðuna. Eins og við nefnum hér að ofan þá er staðan orðin slæm og því má segja að við séum að óska eftir neyðarfundi. Ef deildirnar okkar ynnu eftir viðbúnaðarstigi líkt og Almannavarnir mætti segja við við séum á hættustigi en við það að detta á neyðarstig.“