Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtán ára með landa niðri í bæ
Laugardagur 30. október 2004 kl. 17:03

Fimmtán ára með landa niðri í bæ

Nokkur erill var hjá Lögreglunni í Keflavík í gærkvöldi og í nótt eftir færslum í dagbók lögreglu að ræða.

Á þriðja tímanum í nótt höfðu lögreglumenn svo afskipti af þremur fimmtán ára stúlkum fyrir utan skemmtistað í Keflavík. Var ein þeirra  með landa í plastbrúsa. Var farið með stúlkurnar heim og foreldrar látin vita. Lagt var hald á landann.

Fíkniefni fundust í fórum tveggja ungmenna sem voru stöðvuð í bifreið sinni. Um var að ræða lítilræði af hassi, en pilturinn og stúlkan voru handtekin. Var þeim sleppt að skýrslutöku lokinni.

Skömmu síðar var tilkynnt um mann sparkandi í bíla á Suðurgötu í Keflavík. Handtóku lögreglumenn þar mikið ölvaðan mann og kvað vitni um að ræða sama mann og hafði sparkað í bíl vitnisins. Hafði hliðarspegill verið brotinn. Maðurinn var færður í fangageymslu þar sem hann fékk að sofa úr sér.

Þá var lögreglan kölluð að skemmtistað við Hafnargötu um kl. hálf fimm þar sem maður hafði verið sleginn í höfuðið með flösku. Meiðsli mannsins voru minniháttar og vildi sá sem sleginn var ekki gera neitt frekar í málinu né leita læknis.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024