Fimmta apótekið í Reykjanesbæ verður grænt
Sigríður Pálína opnar Reykjanesapótek í Sjálfstæðishúsinu í Njarðvík
Fimmta apótekið í Reykjanesbæ, Reykjanesapótek, opnar á morgun, föstudag, að Hólagötu 15 í Njarðvík. Njarðvíkingurinn og lyfjafræðingurinn Sigríður Pálína Arnardóttir, sem er nýkomin heim frá Noregi, er eigandi apóteksins.
Reykjanesapótek verður grænt apótek, sem flokkar og endurnýtir, selur náttúrulyf og verður með grænt bókhald í samstarfi við Umhverfisstofnun.
„Við munum vera með náttúrulyf, vítamín og svo verð ég aðeins með hómópatíu. Það er gaman að leiðbeina fólki í sambandi við heilbrigðan lífsstíl,“ segir Sigríður.
Hún segir þau ætla að halda vöruverði í lágmarki og þjónusta alla í heimabyggðinni. „Við ætlum líka að vera með dýralyf, eftir þörfum, þjóna skólunum og íþróttahreyfingunni og vera með það sem íþróttafólkið okkar þarf.
Mig langar líka að reyna að veita skipunum góða þjónustu. Ég er vön því að fara um borð í bátana og hefði gjarnan áhuga á að taka þátt í því,” segir Sigríður.
Opið verður 9-18 á virkum dögum en 12-16 um helgar. Þó mun apótekið bjóða upp á þá þjónustu að geta hringt eftir lokunartíma og fengið aðstoð þegar þörf er á. „Það er svolítil eftirspurn eftir því að hafa opið til 21. Við ætlum að reyna að þjónusta viðskiptavini með allt sem þeir óska eftir að fá í apótekum.“