Fimm sjómenn heiðraðir í Grindavík
Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í Grindavík í gær en skipulögð dagskrá hófst með árlegri sjómannamessu í Grindavíkurkirkju. Þar voru fimm sjómenn heiðraðir fyrir störf sín í gegnum tíðina. Það var Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, sem sá um að hengja orðuna á heiðruðu sjómennina eftir að Vilhjálmur Árnason, þingmaður, hafði farið stuttlega yfir starfsferil þeirra. Frá þessu er geint á vef Grindavíkurbæjar.
Gísli Þorláksson fékk heiðursorðu fyrir störf sín sem stýrimaður og skipsstjóri en hann hóf sjómannsferil sinn á sautjánda aldursári. Hann útskrifaðist með skipsstjórnarpróf árið 1980 og lauk störfum sínum á sjó árið 2008. Gísli starfaði 40 ár á sjó. Eiginkona Gísla er Kristín Þórey Eyþórsdóttir og börn þeirra eru þau Þuríður Gísladóttir og Þorlákur Gíslason. Barnabörn þeirra eru þrjú.
Böðvar Ingvar Halldórsson fékk heiðursorðu fyrir störf sín sem vélstjóri en hann útskrifaðist frá Vélskóla Íslands með vélstjórnarréttindi árið 1970. Hann hóf sjómannsferil sinn á sautjánda aldursári og var á sjó fram til aldamóta 2000. Böðvar starfaði 35 ár á sjó. Eiginkona Böðvars er Halla Emilía Jónsdóttir og dætur þeirra þær Magnea Ósk, Rannveig Jónína og Ásta Halldóra. Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin orðin þrjú.
Halldór Einarsson fékk heiðursorðu fyrir störf sín sem háseti en hann hóf sjómannsferil sinn 16 ára gamall og var á sjó með hléum fram til ársins 1996 þegar við tók netagerð í landi. Jöfnum höndum vann Halldór við veiðafæragerð í Fiskanesi hf en fór yfir til Veiðafæraþjónustunnar þegar Fiskanes hf og Þorbjörn hf sameinuðust. Eiginkona Halldórs er Sigurlaug Sigurðardóttir og eiga þau tvö börn, þau Sólveigu og Sigurð, barnabörnin eru orðin þrjú.
Gísli V. Jónsson fékk heiðursorðu fyrir störf sín sem skipsstjóri en hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum árið 1971, auk réttinda til að stjórna fiskiskipi af hvaða stærð sem er, svokallað Meira fiskimannapróf. Gísli hóf sjómannsferil sinn á 16. aldursári og starfaði í 55 ár á sjó og var skipsstjóri í 48 ár. Eiginkona Gísla í 45 ár var Herdís Hermannsdóttir en hún lést í apríl 2021. Þau eiga þrjú börn, Ingigerði, Hermann og Axel Már. Barnabörnin eru sex.
Guðmundur Sverrir Ólafsson fékk heiðursorðu fyrir störf sín sem skipsstjóri en hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum með aukin réttindi eða svokallað fiskimannaprófu vorið 1973. Guðmundur hóf störf sín á sjó aðeins 14 ára og starfaði í 28 ár á sjó. Eiginkona Guðmundar er Guðmunda Jónsdóttir og eiga þau þrjú börn, Ólaf Má, Sigurð Sverri og Rannveigu Jónínu. Barnabörn þeirra eru 9 og eitt þeirra látið.